Þrír ráðherrar eru smitaðir af kórónuveirunni og því í einangrun. Öll eru þau einkennalaus og hress og því úr vöndu að ráða að drepa tímann, enda öll vön því að vera upptekin frá morgni til kvölds.
Þau hafa leyft landsmönnum að fá smá innsýn í stöðuna á samfélagsmiðlum og þar má sjá dæmi um það sem þau gera sér til dundurs.
Fjármála- og efnahagsráðherra greindist jákvæður á mánudag og tilkynnti þá á Facebook að hann ætli að sinna margs konar verkefnum heima hjá sér í einangruninni, verkefnum sem setið hafa á hakanum. Nefndi hann þá líka bækur á náttborðinu sem hann þurfi að klára.
Samkvæmt Instagram er eitt þessara verkefni púsluspil og hefur hann þegar lokið við rammann.
Vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra greindist jákvæð í gær og tilkynnti að hún ætlaði að reyna að hafa það náðugt þessa tíu daga sem henni ber að verja í einangrun. Af Instagram má ræða að það verkefni gangi nokkuð vel en Áslaug hefur birt mynd af sér með tærnar upp í loft og af dvergvaxinni jólafuru sinni.
Eins deildu hún að hún hafi fengið heimsendan dýrindis mat frá Duck and Rose frá góðum vin.
Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra greindi frá því í gær að hún og fjölskylda hennar væru hálfnuð með einangrun, en bæði hún og maður hennar sem og börnin eru öll með Covid.
„Skjátími hefur verið langt umfram almennar reglur á heimilinu. Vinnufundir vegna Covid eru fjarfundir og sem betur fer fengu allir nýjar bækur í jólagjöf og möndlugjöfin var Partý Skellur svo það er hlegið yfir því – og kettinum Ronju sem fækir sig í kastölunum sem við byggjum.“
Af Instagram má ráða að Þórdís hafi í nægu að snúast en hún tók upp og sendi yfirlýsingu á ráðstefnu í New York um endurskoðun á samningum um bann við dreifingu á kjarnavopnum og þakkaði sínu sæla að börnin og kötturinn hafi hagað sér á meðan á upptöku stóð.
Jólatréið hennar virðist ekki hafa gott af einangruninni og er hálf druslulegt og líklega að drepast úr leiðindum.