Arnþór Guðlaugsson, framkvæmdastjóri Ísteka, segir lyfjaefni sem búin eru til úr blóðvökva blóðmera gagnast við dýravelferð og dýravernd sem og að hafa jákvæð áhrif á kolefnisspor landbúnaðar. Þetta kom fram í pistli sem hann birti hjá Vísi í dag.
Blóðmerahald á Íslandi hefur verið harðlega gagnrýnt undanfarið eftir að dýraverndarsamtök birtu myndband sem sýndu slæma meðferð blóðmera hér á landi. Hefur þess jafnvel verið krafist að blóðmerahald verði bannað með lögum, eða að skilyrði fyrir slíkri starfsemi verði verulega hert sem og eftirlit.
Það er líftæknifélagið Ísteka sem nýtir blóðið úr blóðmerum, þá einkum til framleiðslu á frjósemislyfjum sem seld eru til stórra lyfjafyrirtækja um allan heima. Þar að auki rekur Ísteka þrjár bújarðir þar sem blóðtaka er stunduð og átti hátt í þrjú hundruð blóðmerar á þessu ári.
Arnþór Guðlaugsson hefur lítið gefið kost á viðtölum um starfsemina frá því að umræðan hófst en hefur nú birt tvo pistla hjá Vísi, annars vegar 19. desember þar sem hann greindi frá umbótaáætlun Ísteka og gaf það til kynna að myndbandið frá dýraverndarsamtökunum varpaði ekki réttri mynd á starfsemina hér á landi, svo hins vegar pistil sem hann birti í dag þar sem hann rekur jákvæð áhrif sem starfsemi Ísteka hefur.
Arnþór segir að meðal þeirra efna sem framleidd eru úr blóðvökva hrossa séu efni til meðhöndlunar á stífkrampa og eitrunar af völdum dýrabits, svo sem snáka og kóngulóa. Frjósemislyfið geri það að verkum að bændur þurfi að halda færri dýr sem minnki kolefnisfótspor ræktunarinnar. Eins hafi lyfið verið gefið dýrum í útrýmingarhættu til að bæta frjósemi.
„Svo sem dýra á válista eða í útrýmingarhættu. Þannig hefur eCG [frjósemislyfið] t.d. verið gefið nashyrningum, tígrisdýrum, blettatígrum, pardusköttum, steingeitum, villisvínum, apaköttum og ýmsum tegundum antilópa og dádýra.“
Þar sem með frjósemislyfinu þurfi að halda færri dýr til að viðhalda starfsemi þýði það líka að dýrin búi við betri kost enda ekki jafn þröngt á þingi.
„Vel haldnar hryssur á Íslandi stuðla þannig að betri heilsu og líðan margfalt fleiri húsdýra víða um heim.“
Arnþór heldur því einnig fram að hryssur sem notaðar eru sem blóðmerar lifi betra lífi og við betri skilyrði en aðrar hryssur hér á landi sem og margra annarra húsdýra.
„Það starfar m.a. af því ríka eftirliti sem er haft með þeim árið um kring. Raunar má fullyrða að velferð hryssanna sem búa við frelsi í haga árið um kring sé meiri en margra annarra húsdýra sem sjá okkur fyrir ýmsum daglegum nauðþurftum.“
Arnþór segir að blóðgjöf hryssu taki að meðaltali um 10 mínútur og því þurfi hver blóðmeri að verja um klukkustund á ári i blóðtökuna.
„Hryssurnar hafast við á rúmgóðu og grösugu landi í samfélagi við önnur hross og í samræmi við náttúrulegt atferli sitt. Þær búa við frelsi allan ársins hring og fá ávallt nægt og gott hey og vatn á vetrum til að tryggja velferð dýranna.“
Að lokum bendir Arnþór á að bændur hafi töluverðar tekjur af því að halda hryssur til blóðgjafar og kjötframleiðslu, svo góðar tekjur að þær geti verið nokkur stór hluti í heild af rekstri búsins.
„Missir þeirra getur skipt sköpum um hvort bregða þurfi búi með tilheyrandi fólksfækkun og fjölgun eyðibýla í brothættum byggðum landsins. Framleiðsla Ísteka er mikilvæg fyrir fjölbreyttan landbúnað víða um lönd, hún veitir bændum viðbótartekjur sem geta gert gæfumuninn í starfsemi þeirra og þegar rétt er að staðið, eins og ber að gera, lifa hryssurnar betra lífi en flest þau dýr sem við mennirnir nýtum afurðirnar af.“
Landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að skipa starfshóp til að skoða starfsemi í kringum blóðmerahald hér á landi sem og regluverkið og eftirlitið.
Sigríður Jónsdóttir, búfræðikandídat sem heldur blóðmerar, skrifaði einnig grein á dögunum þar sem hún heldur því fram að heimildarmynd dýraverndarsamtakanna AWF um blóðmerahald hér á landi innihaldi fátt annað en alvarlegar rangfærslur.
„Enginn virðist hafa horft almennilega á þessa mynd. Hún samanstendur einvörðungu af ólöglega fengnu myndefni og alvarlegum rangfærslum. Þeir sem þekkja til hrossarétta og blóðtöku geta séð að ekkert kemur fram í þessum myndskeiðum sem ekki á sér eðlilegar skýringar. Það hafði bara enginn fyrir því að athuga það.“
Sigríður segir mikið eftirlit með starfseminni og ef merki um slæma meðferð hefðu sést hefði Matvælastofnun bundið enda á hana fyrir löngu síðan.
„En merarnar eru spakar hraustar, frjósamar og lifa langa ævi við góða heilsu. Það er gaman að búa með þessar merar. Þær eru dásamlegur bústofn og samskiptin við þær eru innihaldsrík og gefandi.“
Sigríður telur umræðuna um blóðmerahald vera á villigötum og um rógsherferð gegn bændum sé að ræða.
„Ég tala hér úr fámenninu, þar sem við reynum að vinna fyrir okkur við sveitabúskap. Þessi rógsherferð gegn okkur bændum er óþolandi. Við erum nídd niður, þekking okkar og fagmennska er að engu höfð og vísvitandi reynt að hafa af okkur lífsviðurværið með lygum og blekkingum. Ég bið fjölmiðlafólk sem fer með fjórða valdið í þessu þjóðfélagi, að staldra við og skoða málið. Hvað hafið þið gert og hvaða málstað eruð þið að þjóna.“