Áhrifavaldurinn Brynhildur Brá Gunnlaugsdóttir opnaði sig um frægðina í viðtali sem birtist í Fréttablaðinu í morgun. Hún er einn vinsælasti íslendingurinn á samfélagsmiðlinum TikTok, með 1.1 milljón fylgenda, sem er í hærra lagi.
„Þetta er náttúrlega mjög skrýtin tilfinning, að hafa vakið svona mikla athygli á svo skömmum tíma og svolítið sjokk. Þetta er ógrynni fólks og alltaf mikil læti í símanum mínum. Ég er kannski í vinnunni að tjilla og endalaus straumur fólks að reyna að ná til mín og ég veit varla hvað ég á að gera.“ Segir Brynhildur.
Fókus tók viðtal við Brynhildi í ágúst, og þá voru fylgjendurnir meira en helmingi færri, þannig ljóst er að margt hefur breyst hjá henni á undanförnum mánuðum. Hún segist þó ekki vera ósátt með frægðina. „Nei, sannarlega ekki því nú er ég komin með vettvang sem margir þrá að fá. Það er engu að síður undarleg upplifun að fólk taki orðið eftir manni á götum úti, ekki síst börn og unglingar sem vilja fá mynd og spjalla. Mér finnst það bara skemmtilegt áreiti þótt ég sé enn að venjast því og allir eru kurteisir og næs.“
View this post on Instagram
Frægðin er þó ekki eintómur dans á rósum, og Brynhildur er meðvituð um það. Hún segir hatur fylgja frægðinni, en trúir því að það sé merki um að maður sé að gera eitthvað rétt.
„Auðvitað fylgir þessu ákveðið álag og maður uppsker slatta af hatri, en maður getur ekki verið á samfélagsmiðlum nema maður geti tekið því. Ég hef alltaf sagt að ef maður uppsker hatur á þessum vettvangi, þá er maður að gera eitthvað rétt. Ég veit að illar tungur annarra stafa af öfund og það þýðir ekkert að hlusta á það. Það böggar mig hreint ekki neitt, en ég skil að margir taki slíkt nærri sér og þá er þetta ekki rétti bransinn fyrir það. Ég veit hver ég er og fyrir hvað ég stend, ég þekki muninn á réttu og röngu, og ég er sjálfsörugg, ekki síst á þessu sviði,“
Brynhildur segist vilja starfa sem áhrifavaldur í framtíðinni. Hún hafi til að mynda beðið með því að fara í nám, til þess að gefa þessum ferli tækifæri.
„Þetta er klárlega það sem ég vil gera í framtíðinni. Ég er hugmyndarík og ákvað að bíða með frekara nám til að gefa þessu tækifæri og er mjög spennt að sjá hvað gerist í framtíðinni. Upphaflega gerði ég myndböndin til gamans, dansaði eða skemmti mér með vinkonum, enda er ég frekar slök, fyndin og skemmtileg að upplagi, en upp á síðkastið hef ég hugsað meira um hvað ég vil standa fyrir á samfélagsmiðlum og hvernig ég get komið eigin persónuleika meira á framfæri svo að fylgjendur geti kynnst mér betur. Með því fær maður heilsteyptari fylgjendahóp.“
Þá segir hún frekari tækifæri felast í því þegar fólk verður „stærra og þekktara“ í heimi áhrifavaldanna. „Eftir því sem fólk verður stærra og þekktara á þessu sviði aukast möguleikar á alls kyns samstarfi, ferðalögum og tækifærum, og það er mikils virði þegar manns eigin vettvangur er orðinn svo stór. Þá vilja fleiri vinna með manni og koma til móts við hugmyndir manns. Tækifæri framtíðarinnar eru óendanleg og fullt sem ég vil gera.“ segir Brynhildur.
@brynhildurgunnlaugssTHANK YOU SM FOR 1 MIL 😭❤️🔥♬ original sound – edits