Sjö kórónuveirusmit hafa komið upp á meðal sjúklinga hjartadeildar Landspítalans auk þess sem smit hefur greinst á Landakoti en óljóst er um fjölda þeirra. Mbl.is greinir frá þessu og vísar í staðfestingu frá Andra Ólafssyni, upplýsingafulltrúa Landspítalans.
Í tilkynningu sem spítalinn sendi út, í kjölfar fyrirspurnar Mbl.is, kemur fram að í gær hafi sjúklingur á hjartadeildinni greinst með Covid-19. Þá hafi allir sjúklingar deildarinnar verið skimaðir en þá hafi komið í ljós að sex sjúklingar á deildinni til viðbótar hafi greinst með sjúkdóminn.
Hjartadeildinni hefur verið lokað fram til morguns á meðan unnið væri úr málinu. Sjúklingar hafi allir verið upplýstir en unnið er í því að upplýsa alla aðstandendur. Smit hafi einnig borist til starfsmanna en umfangið er óljóst.