VG skýrir frá þessu en miðillinn ræddi við Watle. Fram kemur að sérfræðingar kalli þetta „blendingsónæmi“ eða „ofurónæmi“. „Með ofurónæmi færð þú bæði breiða vörn vegna fyrra smits og verndarinnar frá bóluefninu,“ sagði Watle sem er sérfræðingur í virkni bóluefna.
Hún lagði sérstaka áherslu á að norska landlæknisembættið hvetji fólk alls ekki til að reyna að smitast af kórónuveirunni vegna þess að heilbrigt fólk geti orðið alvarlega veikt af hennar völdum.
Rannsóknir hafa sýnt að besta vörnin gegn veirunni næst þegar ónæmi eftir yfirstaðið smit er styrkt með bóluefni. Færri rannsóknir og gögn hafa sýnt sömu virkni eftir bólusetningu og síðan smit en norska landlæknisembættið reiknar með að allar „blöndur“ séu góðar en þær geta til dæmis verið:
Smit og síðan tveir skammtar af bóluefni.
Sýking, einn skammtur af bóluefni og sýking á nýjan leik.
Tveir skammtar af bóluefni og sýking.
Watle sagði að hugsanlega veiti það aðeins minni vernd ef fólk hefur verið bólusett áður en það smitast en sú blanda veiti samt sem áður breiðari vörn gegn afbrigðum framtíðarinnar en að þrír skammtar af bóluefni.
Ný norsk rannsókn, sem 400 smitaðir tóku þátt í, sýnir að næstum allir voru með mótefni gegn veirunni í blóði sínu ári eftir smit. Það átti einnig við um þá sem höfðu glímt við væg einkenni.