Á dögunum dæmdi Héraðsdómur Norðurlands eystra mann í 45 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir innbrot og líkamsárás. Um er að ræða atvik sem átti sér stað á nýársnótt í fyrra og er hið furðulegasta.
Aðfaranótt 1. janúar árið 2020 fór maður inn í íbúðarhús í leyfisleysi. Þar lagðist hann til rekkju í hjónaherbergi og sofnaði. Húsráðandi hefur komið að manninum sofandi og ætlað sér að vekja hann, en það endaði með ósköpum.
Maðurinn vaknaði og réðst á húsráðanda með því að taka hann hálstaki aftan frá og herða að. Auk þess potaði hann fingri í vinstra auga húsráðanda. Maðurinn hlaut áverka við þetta. Hann fékk mar á hálsinn vegna hálstaksins og potið olli því að hann fékk blóðhlaupið vinstra auga og mar þar undir.
Maðurinn játaði sök. Ekki var talin nein ástæða til að draga játningu hans í efa, og því þurfti ekki að færa frekari sönnur á málið.
Við ákvörðun refsingar var litið til þess að maðurinn játaði sök og sagðist iðrast gjörða sinna. Hann var dæmdur í 45 daga fangelsi, en fullnustu refsingar fellur niður að ári muni maðurinn ekki brjóta almennt skilorð.
Það að auki mun hann greiða 193.120 krónur í sakarkostnað, en fram kom í dómnum að hann hefði samið við brotaþola sinn um greiðslu bóta, og hefði þegar greitt honum hluta þeirra.