Íslenskur karlmaður á sextugsaldri hefur höfðað mál gegn brasilískri eiginkonu sinni til þess að ná fram lögskilnaði. Maðurinn hefur ekki séð tangur né tetur af eiginkonu sinni í meira en áratug né haft við hana neitt samband. Því er stefnan auglýst í Lögbirtingablaðinu og konan hvött til þess að mæta fyrir Héraðsdóm í byrjun árs.
Í stefnunni kemur fram að parið hafi kynnst í kirkjulegu starfi hérlendis árið 2005 og gift sig sama ár. Í kjölfarið hafi parið flutt til Brasilíu og ætlað að koma sér þar fyrir. Áður en það hafði fyllilega tekist hafi maðurinn, sem starfar sem sjómaður á flutningaskipum víða um heim, haldið til vinnu sinnar. Hann hafi verið tvo mánuði á sjó en þegar hann sneri aftur til Brasilíu hafi konan verið horfin á braut og hafi hann ekki heyrt neitt í henni síðan. Engin börn eru í spilinu né hafi hjónin komið sér upp neinum eignum saman.
Síðan er liðinn rúmur áratugur eins og áður segir. Í stefnunni kemur fram að vegna starfa sinna á flutningaskipum hafi maðurinn haft stopula viðdöl á hverjum stað og ekki fest neins staðar rætur. Hann hafi því ekki haft tök á að ganga formlega frá skilnaði fyrr en nú. Hann hafi verið búsettur erlendis en er nýlega fluttur til Íslands.