Í dag tilkynnti Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra um hertari samkomutakmarkanir vegna kórónuveirunnar. Í gær greindust 286 einstaklingar innanlands hér á landi með veiruna, rúmlega 2 þúsund manns eru í einangrun og 12 liggja inni á Landspítalanum.
Svipaða sögu er að segja um smittölur í löndum víða um heim en smit hafa aukist hratt að undanförnu vegna Ómíkrón afbrigðisins.
Ekki eru allir sammála um að tilefni sé til að herða takmarkanir hér á landi og ljóst er að fólk er orðið langþreytt á heimsfaraldrinum. Mikið hefur verið rætt um takmarkanirnar á samfélagsmiðlum undanfarin sólahring og hefur fólk afar misjafnar skoðanir á þeim.
Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), er meðvitaður um að fólk sé orðið þreytt á veirunni, sérstaklega þegar líða fer að jólum.
„Við viljum öll eyða tíma með vinum okkar og fjölskyldu. Við viljum öll að allt verði eðlilegt á ný. Hraðasta leiðin til að gera það er ef við öll saman – leiðtogar og einstaklingar – tökum erfiðar ákvarðanir sem við verðum að taka til að vernda okkur sjálf og aðra,“ sagði hann á blaðamannafundi í gær.
Þá var Tedros myrkur í máli sínu og hvatti fólk til að fresta samkomum vegna veirunnar. „Það er betra að fresta núna og fagna síðar en að fagna núna og syrgja síðar. Ekkert okkar vill vera á þessum sama stað eftir 12 mánuði, að tala um glötuð tækifæri, áframhaldandi misrétti eða ný afbrigi.“