Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í síðustu viku mann fyrir alvarlega líkamsárás með því að hafa kastað glerglasi í andlit annars manns á Enska barnum í miðborg Reykjavíkur í nóvember árið 2019.
DV greindi frá ákærunni í nóvember í fyrra.
Í dómnum er því lýst að lögregla hafi verið kölluð til vegna áfloga inni á veitingastaðnum skömmu eftir miðnætti aðfaranótt 29. nóvember 2019. Þegar lögregla kom á staðinn stóð brotaþoli í málinu fyrir utan staðinn með tusku upp að höfði sér sem var alblóðug og virtist vera sár á andliti mannsins. Í samtali lögreglu og árásarmannsins kom fram að fórnarlamb glerkastsins hafi gengið upp að árásarmanninum og kærustu hans og hvíslað að konan væri lauslát og að hana langaði til þess að sofa hjá sér. Þá hafi soðið upp úr þeirra á milli.
Svo óheppilega vildi til fyrir árásarmanninn að atburðarásinn náðist á myndbandsupptöku og er henni lýst svo í dómnum:
Í málinu liggja fyrir upptökur úr eftirlitsmyndavél staðarins. Upptökurnar eru skýrar og kannaðist ákærði við sig á þeim. Einnig sjást eiginkona ákærða og brotaþoli. Á upptökunum sést umrætt atvik frá tveimur sjónarhornum. Það hefst nokkru áður en ákærði kastar glasinu og má því sjá aðdragandann rétt fyrir atvikið. Þar sést eiginkona ákærða standa við hátt borð og ræða við brotaþola. Ákærði er á vappi þar í kring og greinilegt að honum misbýður eitthvað og sýnir hann brotaþola ógnandi tilburði. Eiginkona hans heldur stillingu sinni og sést að hún reynir að róa ákærða, m.a. með ákveðinni handahreyfingu sem beint er í átt til hans. Ákærði gengur þá að næsta borði sem er töluvert frá þeim. Eiginkonan heldur áfram að ræða við brotaþola. Þá sést þegar ákærði tekur glas af borðinu sem hann stendur við, virðist hella úr því, ganga fram fyrir borðið og kasta glasinu svo ákveðið og af alefli í átt að ákærða sem þá fer úr mynd. Þá sést ákærði ganga rösklega í þá átt að brotaþola.
Árásarmaðurinn lýsti því þá fyrir dómi að ætlun hans hafi verið að kasta glasinu í vegg og að glerbrot kunni að hafa farið af veggnum í brotaþola. Í dómnum er sú skýring sögð „síðbúin“ og „ótrúverðug.“
Þótti sannað að maðurinn hafi sannarlega varpað glasinu og að afleiðingar árásarinnar hafi verið alvarlegar. Í því ljósi var maðurinn sakfelldur fyrir alvarlega líkamsárás.
Litið var til þess að um fyrsta brot mannsins sé að ræða og þótti því rétt að dæma manninn í sex mánaða fangelsi, en að skilorðsbinda refsinguna til tveggja ára. Þá þarf sá sakfelldi að greiða brotaþola sínum hálfa milljón í bætur vegna málsins auk málskostnaðar og laun verjanda síns.