Í dag voru nýjar sóttvarnarreglur tilkynntar landsmönnum, en eins og vanalega voru þær byggðar á minnisblaði Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis. Svo fór að ákvarðanir ríkisstjórnar voru að miklu leiti í takt við minnisblaðið, en þó ekki alveg eins.
Að þessu sinni lak minnisblað Þórólfs til fjölmiðla, en umræða um þennan leka skapaðist í kjölfarið. Til að mynda gaf Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósíalistaflokksins til kynna að lekinn hefði verið skipulagður, til þess að láta Þórólf líta illa út, en ekki Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra
Sjá einnig: Telur Willum hafa lekið upplýsingum til að láta Þórólf líta illa út
Willum segist sjálfur ekki hafa hugmynd um hvaðan leikinn kom, og telur að það hafi ekki komið frá eigin starfsfólki. „Ég hef ekki hugmynd,“ sagði hann. Fréttablaðið greinir frá þessu.
„Ég skil ekki hvernig það ætti að gerast. Ég bara veit það ekki,“ sagði hann, en bætti þó við að hann væri búinn að spyrjast fyrir um málið. „Bara í ráðuneytinu. Hvernig mögulega fór þetta út. Ég bara skil það ekki sko. En það þýðir ekkert að velta sér upp úr því núna.“ sagði nýr heilbrigðisráðherra.