„Ég fagna því að samstaða hafi náðst í fjárlaganefnd rétt í þessu um tillögu stjórnarandstöðunnar um að greiða öryrkjum 53 þúsund króna aukagreiðslu skattfrjálst og skerðingarlaust.“
Svona hefst færsla sem Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, birti á Facebook-síðu sinni í kvöld. Með þessari niðurstöðu fá öryrkjar og einstaklingar á endurhæfingarlífeyri því eingreiðslu eins og þeir fengu í fyrra.
„Þingflokkar Samfylkingar, Flokks fólksins, Pírata og Viðreisnar hafa undanfarið barist fyrir því að ríkisstjórnin greiði öryrkjum og einstaklingum á endurhæfingarlífeyri eingreiðslu eins og gert var fyrir síðustu jól. Í síðustu viku lögðu fulltrúar flokkanna í fjárlaganefnd fram breytingartillögu þess efnis.“
Kristrún segir að um gleðitíðindi sé að ræða. „Það eru því gleðitíðindi að stjórnarmeirihlutinn hafi loks fallist á tillögu stjórnarandstöðunnar og að fjárlaganefnd standi að baki slíkri tillögu. Aðgerðin skiptir þúsundir heimila sköpum yfir hátíðirnar!“ segir hún.
Flokksbróðir Kristrúnar, þingmaðurinn Jóhann Páll Jóhannsson, segir á sinni Facebook-síðu að um góðar fréttir sé að ræða. „Aðgerðin skiptir þúsundir heimila sköpum yfir hátíðirnar en kemur auðvitað ekki í staðinn fyrir varanlegar kjarabætur fyrir þennan hóp sem hefur setið eftir fjárlög eftir fjárlög, kjörtímabil eftir kjörtímabil. Baráttan heldur áfram,“ segir Jóhann.