Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýnir harðlega fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar að tvöfalda frítekjumark atvinnutekna hjá eldra fólki úr 100 þúsund krónum og upp í 200 þúsund krónur en láta almenna frítekjumarkið óhreyft. Í færslu á Facebook-síðu sinni fer þingmaðurinn yfir málið og hvernig að aðgerðin gagnast helst tekjuháum eldri borgurum. Fólk sem unnið hefur erfiðisvinnu og getur ekki unnið lengur og treystir því á greiðslur úr lífeyrissjóði er skilið eftir.
„Það bitnar á sjómanninum, sjúkraliðanum, smiðinum og kennaranum, fólki sem vinnur slítandi störf alla sína ævi og verður að setjast í helgan stein, heilsu sinnar vegna – þetta fólk þarf áfram að sætta sig við frítekjumark lífeyristekna upp á 25 þúsund krónur á mánuði og svo byrja skerðingarnar strax að bíta. Hér er ríkisstjórnin að fara í þveröfuga átt við þróunina á Norðurlöndum, til dæmis í Danmörku þar sem ríkisstjórn jafnaðarmanna er að innleiða breytingar til að ívilna fólki sem hefur unnið slítandi erfiðisvinnu alla sína starfsævi. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur vill frekar halda áfram að refsa því fyrir að hafa safnað í lífeyrissjóði,“ sagði Jóhann Páll í ræðu um fjárlög í byrjun mánaðarins.
Á fundi efnhags- og viðskiptanefndar Alþingis þann 15. desember síðastliðinn óskað Jóhann Páll eftir að teki yrði saman minnisblað um hvernig ábatinn af tvöföldun frítekjumarks atvinnutekna hjá eldra fólki skiptist eftir tekjutíundum og kyni. Tveimur dögum síðar lagði Félagsmálaráðuneytið í samstarfi við Tryggingastofnun ríkisins minnisblaði fram en þar var lagt mat á áhrifunum af hækkun frítekjumarkanna. Þar kemur fram að heildarkostnaðurinn við aðgerðina er talinn vera um 560 milljónir króna og að um 1.300 manns hafi hag af henni.
Að mati Jóhanns Páls eru aðrar leiðir skynsamlegri.
„Aðeins 1.279 manns (3% aldraðra) hafa beinan ávinning af hækkun frítekjumarks atvinnutekna, þar af 67% karlar og 33% konur. Mesti ávinningurinn er hjá tekjuhæstu 10% eldra fólks en tekjulægri 70% finna varla fyrir breytingunni. Hækkun almenna frítekjumarksins myndi hins vegar dreifast nokkuð jafnt á kyn og skila sér miklu betur til lágtekju- og millitekjuhópa. Hækkun frítekjumarks atvinnutekna er besta mál en hitt er miklu brýnna. Verði frítekjumark atvinnutekna hjá eldra fólki hækkað er auðvitað lágmarkskrafa að frítekjumark atvinnutekna hjá öryrkjum, sem hefur staðið í stað í áratug, hækki með sama hætti strax um áramótin.“
–