„Það er mikið á þessa ungu drengi lagt. Það er stutt síðan að þeir misstu allt sitt í eldsvoða og núna skiptir máli að þeir hafi tök á því að verða sjálfstæðir einstaklingar,“ segir Harpa Hrönn Gestsdóttir, móðuramma bræðranna Elísar Arons, Gunnlaugs Arnar og Brynjars Pálma Árnasona.
Bræðurnir og fjölskyldur þeirra eru í sárum eftir að foreldar þeirra, Árni Helgi Gunnlaugsson og Jenný Bára Hörpudóttir, féllu frá með nokkurra vikna millibili. Árni Helgi lést þann 23. nóvember síðastliðinn, 57 ára að aldri, eftir hálfs árs baráttu við illvígt krabbamein og var jarðsettur þann 3. desember síðastliðinn. Nóttina eftir jarðaförina varð Jenný Bára bráðkvödd, aðeins 39 ára gömul.
Bræðurnir þrír eru 15, 16 og 18 ára gamlir og hafa glímt við margskonar mótlæti undanfarin ár. Það vakti þjóðarathygli þegar eldur kviknaði í íbúð feðganna í Jórufelli þann 28. september 2019 og flestar veraldlegar eigur þeirra brunnu til kaldra kola. Það var kraftaverk næst að bræðurnir hafi sloppið úr þeim hildarleik.
„Ég hélt þarna, að ég gæti mögulega verið að missa tvo af þremur strákunum mínum. Það er auðvitað erfitt að lýsa því, hvernig manni líður á svona stundu,“ skrifaði Árni Helgi heitinn í tilfinningaþrungnum pistli sem birtist á Vísi skömmu eftir eldsvoðann.
Um afar áhrifaríka lesningu var að ræða þar sem Árni Helgi lýsti þeirri örvæntingu sem hann upplifði þegar hann frétti af eldsvoðanum og hvernig hann kom á vettvang án þess að vita neitt um afdrif sona sinna. Hann náði ekki í þá í síma og óttaðist hið versta.
„Ég veit ekki hve langur tími leið. Tíminn verður svo afstæður í svona aðstæðum. Fyrir mér var þetta heil eilífð. En loksins sá ég drengina mína, á náttfötunum að ræða við lögreglumann. Það er auðvitað ekki heldur hægt að koma orðum að þeirri upplifun, svo vel sé. En hugtakið að „heimta úr helju“ fær alla vega dýpri og þrungnari merkingu. Á því augnabliki sem ég sá þá, missti ég eiginlega alveg áhugann á eldsvoðanum og því sem var að brenna, eða hafði brunnið. Fékk það beint í æð, hvað það er, sem skiptir máli í lífinu. Get ennþá upplifað þessa tilfinningu þegar ég hugsa um töfraaugnablikið,“ skrifaði Árni Helgi.
Feðgarnir voru að vinna sig úr þessum erfiðleikum þegar Árni Helgi greindist með illvígt krabbamein um mitt ár sem hafði hann undir hálfu ári síðar. Fjölskylda og vinir bræðranna hafa nú blásið til söfnunnar sem móðursystir þeirra, Aníta Runólfsdóttir, heldur utan um. Móðuramma þeirra, Harpa Hrönn, segir að framtíð þeirra sé óráðin en ástvinir þeirra muni styðja við bakið á þeim.
„Það er stutt síðan þeir misstu allt sitt í eldsvoða og nú skiptir máli að þeir hafi tök á að verða sjálfstæðir einstaklingar. Þá dreymir um að taka bílpróf, vilja mennta sig og eiga bjarta framtíð. Fjárhagsáhyggjur og að eiga enga foreldra til staðar gerir þeim erfiðara fyrir. Öll óvænt útgjöld getur reynst þeim erfið, því var styrktarreikningurinn gerður til að geta mætt þessum þörfum hjá drengjunum.“
Reikningsupplýsingar söfnunarinnar eru eftirfarandi: Reikn. 0370 13 008564 – Kt. 130893-2019.