Ellefti þingfundur nýkjörins Alþingis fór fram síðastliðinn miðvikudag. Fundurinn hófst á slaginu 15.00 og dagskráin var stíf enda stóð fundurinn fram undir miðnætti. Áhugamaður um störf Alþingis vakti DV á atviki í þingsal seint um kvöld þar sem Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, geiflaði sig með óborganlegum hætti eftir að hafa lokið máli sínu í funheitri umræðu um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Taldi sendandi að mögulega væri þingmaðurinn nýji að láta í ljós óánægju sína með fundarstjórn forseta Alþingis en í stóli hans sat Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
DV bar málið undir Jóhann Pál sem hló við og vísaði því alfarið á bug. „Þarna er ég grautfúll út í sjálfan mig fyrir að hafa haldið áfram að tala þegar kynna átti næsta ræðumann upp í pontu. Þetta er heldur skringilegt, ætli maður verði ekki að læra að hafa hemil á andlitinu á sér á þessum virðulega vettvangi?,“ segir Jóhann Páll.
Hann segir af og frá að hann hafi verið að gera grín að næsta þingmanni á mælendaskrá, sem í þessu tilviki var Sigmar Guðmundsson frá Viðreisn, né hafi hann verið í fýlu út í fundarstjórn forseta. Um beitta sjálfsgagnrýni hafi verið að ræða. „Það var alls ekkkert svoleiðis í gangi þarna. Þetta er svona skömmustu- eða vandræðasvipur. Mér skilst að ég setji hann stundum upp þegar mér finnst ég ekki hafa komið orðum vel að einhverju – en þarna er þetta mjög ýkt,“ segir þingmaðurinn léttur.