Eystri Landsréttur í Danmörku hefur þyngt dóm yfir íslenska barnaníðingnum Markúsi Betúel Jósefssyni sem fundinn var sekur um að hafa nauðgað dóttur sinni ítrekað á fjögurra ára tímabili þegar stúlkan var fimm til níu ára gömul. Markús neitaði sök en fyrr á árinu var hann dæmdur í fjögurra ára fangelsisdóm fyrir afbrot sín en hann ákvað að áfrýja dómnum til æðra dómstigs. Sá dómstóll kvað upp þann úrskurð að Markús ætti að sæta sex ára fangelsi. Á báðum dómstigum var ákveðið að eftir afplánun dómsins yrði Markúsi vísað úr landi og mætti aldrei aftur stíga fæti á danska grundu.
Sjá einnig: Markús dæmdur í fjögurra ára fangelsi
Sveitarfélagið í Nyborg í Danmörku tilkynnti um málið til lögreglunnar árið 2018 og þá hófst rannsókn málsins. Sú rannsókn leiddi ljós að nauðganirnar áttu sér stað á árunum 2006 til 2010 þegar Markús hafði umgengni við dóttur sína. Ofbeldið átti sér stað bæði á Íslandi og í sumarhúsi á Fjóni. Fram hefur komið að dóttir Markúsar hefur ekki séð föður sinn síðan árið 2010.
Þegar rannsókninni lauk var Markús búsettur á Spáni og þann 2. júní 2020 var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald að honum fjarstöddum. Í kjölfarið var hægt að gefa út alþjóðlega handtökuskipun á hendur honum. 17. október 2020 var hann handtekinn í Alicante á Spáni og hálfum öðrum mánuði síðar var hann framseldur til Danmerkur þar sem hann hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan.
Auk nauðgana var Markús einnig dæmdur fyrir að hafa hótað dóttur sinni ofbeldi og að hafa beitt hana ofbeldi.