Landsréttur hefur staðfest úrskurð héraðsdóms um gæsluvarðhald yfir Herði Sigurjónssyni, 65 ára gömlum manni, sem grunaður er um margendurtekna kynferðislega áreitni við börn í gegnum samfélagsmiðilinn Snapchat. Þetta kemur fram á vef RÚV. Er Hörður úrskurðaður í gæsluvarðhald til 6. janúar. Hörður kærði úrskurð Héraðsdóms til Landsréttar sem staðfesti úrskurðinn.
Í samtali við DV í sumar neitaði Hörður því að hafa brotið af sér. DV hafa borist gögn, bæði fjölmörg skjáskot og hljóðritun af símtali, sem sýna hann ávarpa börn með mjög klámfengnum hætti og í einhverjum tilvikum freista þessa að hitta þau.
Samkvæmt frétt RÚV eru 22 mál til rannsóknar gegn Herði gegn börnum á aldrinum 11 til 16 ára. Ekki liggur fyrir hvort þetta er heildarfjöldi mála gegn Herði eða hvort rannsókn einhverra mála sé lokið. Ævar Pálmason, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar, tjáði DV snemma í haust að rannsóknir á fimm málum gegn Herði frá því í vor væru á lokametrunum. Ekki náðist í Ævar við vinnslu þessarar fréttar og liggur því ekki fyrir hvort þessi fimm mál eru inn í tölunni 22 mál eða hvort rannsókn þeirra er lokið.
DV hefur einnig vitneskju um mál gegn Herði sem ekki hafa verið kærð til lögreglu. Gætu því tilvik um áreitni hans verið miklu fleiri en 22.