DV skýrði nýlega frá máli Cox og þeim hrottalegu glæpum sem hann var dæmdur til dauða fyrir.
Var dæmdur til dauða fyrir hrottalegan glæp – Skýrði frá hryllilegu leyndarmáli rétt fyrir aftökuna
CNN segir að skömmu fyrir aftökuna hafi hann afhent lögmönnum sínum bréf og teikningu sem sýndi hvar lík konu, sem hvarf 2007, væri grafið. Þetta var mágkona hans, Felicia Cox. David Cox hafði áður legið undir grun um að hafa myrt hana en lögreglan hafði ekki nægar sannanir til að handtaka hann vegna málsins.
Í sumar byrjuðu lögmenn hans að ræða við John Weddle, saksóknara, um hvar lík Felicia gæti verið grafið. Weddle hét David Cox friðhelgi varðandi mál hennar ef hann skýrði frá hvar lík hennar væri að finna. Í tengslum við þetta aflétti David trúnaðarskyldu lögmanna sinna gagnvart honum svo þeir gætu afhent lögreglunni bréfið og teikninguna þegar hann væri látinn.
Eftir að Weddle fékk teikninguna sendi hann leitarhóp til Pontotoc County í Mississippi. Í hópnum voru meðal annars fornleifafræðingar og mannfræðingar frá ríkisháskólanum í Mississippi.
Á sunnudaginn fann hópurinn líkamsleifar á þeim stað sem David hafði sagt að þær væri að finna. Þær hafa nú verið sendar til rannsóknar hjá réttarmeinafræðingum og til dna-rannsóknar. Beðið er staðfestingar á að þetta sé lík Felicia Cox en ef svo er þá hefur loksins tekist að leysa málið. Dóttir hennar, Amber Miskelly, og aðrir ættingjar voru á vettvangi þegar líkamsleifarnar fundust.