fbpx
Laugardagur 25.janúar 2025
Eyjan

Ragnar rifjar upp æskuna í hugvekju um jólin – „Það var ævintýri líkast að alast upp í Breiðholtinu“

Eyjan
Þriðjudaginn 14. desember 2021 14:23

Ragnar Þór formaður VR

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að jólin séu fyrir honum tími til að líta inn á við í jólahugvekju sem hann birti á dögunum inn á vefsíðu VR. Þar veltir hann fyrir sér þriðju vaktinni svonefndu sem felst í verkstjórn heimilisins sem gjarnan fellur konum í hlut, en VR hefur undanfarið staðið fyrir vitundarátaki um þessa hugrænu byrði sem verkstjórn heimilisins er og áhrifum hennar á stöðu kynjanna á vinnumarkaði og langtímaáhrifum á afkomu og andlega líðan. 

Ævintýri að alast upp í Breiðholti

Ragnar segir að hugtakið þriðja vaktin hafi opnað augu hans og eiginkonu hans fyrir þessu mikilvæga jafnréttismáli. Það fékk hann líka til að hugsa til baka til eigin æsku og hvernig móðir hans tókst á við þriðju vaktina.

„Sem barn ólst ég upp í Breiðholtinu, í hverfi sem byggt var upp í húsnæðisátaki aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda til að bregðast við ófremdarástandi á húsnæðismarkaði. Mamma, blessuð sé minning hennar, var sjúkraliði á Barnaspítala hringsins og pabbi var bílstjóri hjá Ölgerðinni.“

Ragnar segir að það hafi verið ævintýri líkast að alast upp í Breiðholti.

„Það var ævintýri líkast að alast upp í Breiðholtinu, hverfi sem uppfullt var af barnafjölskyldum af milli- og lægri stéttum samfélagsins. Samheldni einkenndi lífið í Breiðholtinu þótt það hafi af sumum verið álitið harkalegt og óvægið. Félagsleg staða margra sem þar bjuggu var afar bágborin þó að flestir hafi borið sig vel. Mér er það enn í fersku minni hvernig lífsins spilum var misskipt þá og það dregur fram hversu ójafnt er gefið enn í dag.“

Móðir Ragnars stóð þriðju vaktina

Á hans heimili sá móðir hans að mestu um heimilisstörfin á meðan pabbi hans vann langar vaktir við akstur fyrir Ölgerðina.

„Það kom því í hlut mömmu að taka á sig þá hugrænu byrði sem við höfum skilgreint í dag sem þriðju vaktina. Ég get ekki sagt að ég hafi verið auðvelt barn í uppeldi og umgengni. Í raun alveg snarbrjálaður ef ég ætti að finna einhvern kómískan mælikvarða og líklega hefði ég fengið einhverja af þeim fjölmörgu greiningum sem til eru í dag hefðu þær verið gerðar á þessum tíma.“

Þetta hafi gert það að verkum að þriðja vaktin var móður hans erfiðari en hún ætti að vera.

„Þetta gerði samskipti við skóla og allt utanumhald heimilisins mun erfiðara en ætla mætti undir venjulegum kringumstæðum. En hvað var svo sem venjulegt við Breiðholtið á þessum tíma? Mamma stóð þessa vakt af mikilli ást og alúð en þó kom fyrir að hún brotnaði eftir fundi með kennurum sem voru að bugast eða öðrum foreldrum eða hinu opinbera eftir strákapör vinahópsins.“

Í aðdraganda jóla var mikið að gera. Það þurfti að taka til, þrífa, skreyta, versla gjafir og skrifa jólakort. Svo þurfti að baka, kaupa jólaföt, koma liðinu í klippingu og að sjálfsögðu var líka jólamaturinn, jólaböllin og jólaveislurnar sem þurfti að skipuleggja.

„Á meðan pabbi vann frá morgni til kvölds (fyrsta vaktin) þar sem eftirspurn eftir öli var margföld í aðdraganda hátíða var mamma að vinna á Barnaspítalanum. Stundum vann hún á jólunum og sinnti heimilinu (önnur vaktin) og skipulagði allt sem þurfti að gera svo allir gætu hringt inn jólin með hreint borð, hreina veggi og loft, hreint á rúmunum og í hreinum nýpressuðum jólafötum.“

Áminning um stöðu okkar í samfélaginu

Ragnar segir að hann hafi notið þeirra forréttinda að alast upp á heimili með báðum foreldrum, umvafinn ást og þolinmæði og þurfti aldrei að líða skort. Það sé þó ekki þannig hjá öllum. Þriðja vaktin geti orðið sérstaklega erfið hjá þeim sem búa við fjárhagsáhyggjur eða húsnæðisóöryggi, sérþarfir barna eða umönnun nákominna og þá óvissu og viðbótaralag sem „skapast í kringum heimilið ef þú ert utan hins hefðbundna ramma.“

„Hátíð ljóss og friðar er líka áminning um stöðu okkar í samfélaginu og hjá sumum rauða spjaldið ef þeir standa illa félagslega og/eða fjárhagslega.“

Ragnar hvetur því landsmenn til að deila hugrænni byrði. Í dag virðist fólk í minna mæli huga að stöðu annarra í samfélaginu og hugsa meira um sjálfa sig og það sé miður. Til að mynda hafi hann í æsku kynnst mörgum langveikum börnum utan af landi sem komu með móður sinni í kaffi heim til hans, eða í pössun hjá móður hans þar sem fjölskylda þeirra hafði lítið eða ekkert tengslanet í höfuðborginni

„Deilum hugrænni byrði. Tökum kærleikann og gildin fram yfir glamúrinn. Strengjum eilíft heit um að gera samfélagið okkar betra og tökum ávallt upp hanskann fyrir okkar veikustu bræður og systur.“

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Kristrún Frostadóttir: Atburðir úti í heimi hafa áhrif á ESB ferlið á Íslandi – geta breytt valmöguleikum okkar

Kristrún Frostadóttir: Atburðir úti í heimi hafa áhrif á ESB ferlið á Íslandi – geta breytt valmöguleikum okkar
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Halla búin að senda Trump heillaóskir

Halla búin að senda Trump heillaóskir
Eyjan
Fyrir 1 viku

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona
Eyjan
Fyrir 1 viku

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar