Fjórmenningarnir voru nýlega handteknir að sögn yfirvalda. Auk Maund eru það Gilad Peled, Byron Brockway og Adam Carey sem voru handteknir. Peled þóttist vera fyrrum liðsmaður ísraelska hersins, Brockway er fyrrum liðsmaður bandaríska landgönguliðsins og Carey er fyrrum liðsmaður sérsveita landgönguliðsins. CNN skýrir frá þessu.
Konan, sem Maund hitti, hét Holly Williams og var 33 ára. Unnusti hennar, sá sem krafði Maund um greiðslu, hét William Lanway og var 36 ára.
Fjórmenningarnir hafa nú verið ákærðir fyrir samsæri þar sem þeir hafi haft í hyggju að ræna Williams og Lanway og myrða þau. Þeir eru einnig ákærðir fyrir vopnaburð. Ef þeir verða fundnir sekir eiga þeir allt að lífstíðarfangelsi yfir höfði sér.
Áætlunin um að ræna Williams og Lanway hófst í byrjun mars á síðasta ári þegar Maund tók 15.000 dollara út af bankareikningi sínum og „upplýsingaskýrsla“ var afhent Peled en það var ættingi Brockway sem gerði hana en hann vann fyrir netöryggisfyrirtæki.
Sex dögum síðar símsendi Maund 150.000 dollara til reiknings sem Peled á en á sama tíma fóru Brockway og Carey, vopnaðir skammbyssum, að heimili Williams og Lanway. Þar var Lanway skotinn til bana og Williams numin á brott af Brockway og Carey. Þeir óku með hana og lík Lanway að byggingasvæði þar sem þeir skutu Williams til bana að því er segir í ákærunni.
Nokkru eftir morðið millifærði Maund 750.000 dollara inn á reikning Peled sem greiddi síðan Brockway og Carey fyrir að hafa rænt parinu og myrt.
Það voru liðsmenn alríkislögreglunnar FBI sem handtóku fjórmenningana nýlega. Þeir voru handteknir á fjórum stöðum í Bandaríkjunum en verða allir framseldir til Tennessee þar sem réttað verður yfir þeim síðar.