Kona sem var nauðgað fyrir þremur árum taldi nauðgarann vera að afplána dóm sinn en segir í samtali við DV að hún hafi síðan lesið um það í fréttum nýverið að hann fyndist hvergi og hefði flúið land.
Nauðgarinn, Mahdi Soussi, er spænskur ríkisborgari og starfaði sem dyravörður á skemmtistað á höfuðborgarsvæðinu í desember 2018 þegar hann þóttist ætla að koma konunni til aðstoðar þar sem hún var hjálpar þurfi en nauðgaði henni hrottalega í staðinn.
Sjá einnig: Skemmtistaðanauðgarinn finnst ekki – Fékk tvö ár fyrir hrottalega nauðgun og hvarf
Soussi var í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir nauðgun. Í dómsorði sagði: „Nýtti hann aðstöðu sína til illverka og var ásetningur hans einbeittur. Þá liggur fyrir í gögnum málsins að háttsemin hefur valdið brotaþola mikilli vanlíðan sem hún glímir enn við.“
Hann áfrýjaði til Landsréttar þar sem dómur féll í október 2020 og dómurinn var mildaður í tveggja ára fangelsi.
Í lok nóvember á þessu ári var dómurinn síðan birtur í Lögbirtingarblaðinu með vísan til þess að ekki hefði tekist að hafa uppi á Soussi til að birta honum dóminn. Samkvæmt heimildum DV hefur hann flúið land.
Hvernig gat hann flúið?
„Ég er búin að vera með mikinn kvíða og áfallastreituröskun út af þessu máli. Ég heyrði af því fyrir einhverjum mánuðum að hann væri týndur en fékk aldrei að vita neitt meira. Ég hélt að hann væri núna í fangelsi,“ segir konan sem var mjög brugðið að lesa um það í fjölmiðlum að maðurinn sem nauðgaði hennar væri hins vegar alls ekki að afplána dóm sinn heldur væri hann flúinn.
Þá finnst henni ótrúlegt að maðurinn hafi getað flúið land. „Hvernig gat þetta gerst? Hann var í farbanni. Af hverju var ekki fylgst betur með þessu?“ spyr hún.
Henni finnst líka óskiljanlegt að dómurinn yfir honum hafi verið mildaður um heilt ár. „Hann tók mikið frá mér þetta kvöld. Ég treysti engum og er búin að vera mjög óörugg. En ég ætla ekki að leyfa honum að taka meira frá mér og reyna að halda áfram með líf mitt. Ég verð að segja að mér finnst samt að dómurinn hafi mátt vera þyngri miðað við hvað þetta var hrottalegt,“ segir hún og bætir við: „Mér finnst í raun bara fáránlegt hvað réttarkerfið okkar er ömurlegt.“
Handtekinn sama kvöld
Í dóminum yfir Soussi segir að um miðjan desember 2018 hafi hann elt fórnarlamb sitt inn á salernisbás á veitingastað þar sem hann starfaði, læst hurðinni á eftir sér, snúið konunni við, tekið um brjóst hennar, rifið niður buxur hennar og þvingað hana til samræðis og endaþarmsmaka gegn vilja sínum. Hlaut konan af árásinni þó nokkra áverka auk þess sem hún var síðar greind með áfallastreituröskun.
Maðurinn var handtekinn þetta sama kvöld. Í dómi héraðsdóms voru skýringar Soussi metnar ótrúverðugar en hann gaf aðrar skýringar fyrir dómi en hann gaf við lögreglu á vettvangi. Framburður konunnar var hins vegar metinn stöðugur og trúverðugur. Þá staðfestu DNA sýni sem tekin voru af líkama konunnar og fötum hennar að sáðfrumur úr manninum væru þar til staðar.
Við ákvörðun refsingar Soussi í héraðsdómi var litið til þess að maðurinn hafi nýtt sér ölvun konunnar auk þess að hann hafi verið starfsmaður skemmtistaðarins.
„Ég er mikið búin að vera hjá sálfræðingum eftir þetta og í áfallastreitumeðferð. Mér finnst að hann eigi að afplána sína refsingu og jafnvel að refsingin verði þyngd út af því að hann flýr. Ég er hissa á að dómskerfið okkar sé ekki betra en þetta,“ segir konan.
Skemmtistaðanauðgarinn finnst ekki – Fékk tvö ár fyrir hrottalega nauðgun og hvarf