Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Þessar aðgerðir koma í kjölfar myndbands sem svissnesk dýraverndunarsamtök birtu og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum að undanförnu.
Morgunblaðið hefur eftir Arnþóri Guðlaugssyni, framkvæmdastjóra Ísteka, að ekki sé búið að áætla kostnaðinn við þessar endurbætur nákvæmlega en reikna megi með að hann hlaupi á tugum milljóna króna. Fjárfesta þarf í fólki og innviðum.
Í síðustu viku rifti Ísteka samningi við tvo bændur vegna dýravelferðarfrávika. Haft er eftir Arnþóri að ástæðan sé sú meðferð sem sjáist í myndbandi dýraverndunarsamtakanna. Þar sást að illa var farið með hross af hálfu samstarfsbænda Ísteka.
Ísteka hefur átt í samstarfi við 119 bændur á þessu ári um blóðgjafir hryssa til lyfjaframleiðslu.
Haft er eftir honum að það skipti fyrirtækið og viðskiptavini þess miklu máli að velferð dýra sé höfð að leiðarljósi við vinnslu afurðanna.