Ljóst er að hatrömm deila vegna ásakana í garð Ásgeirs Jónssonar um hugmyndastuld við ritun bókar hans, Eyjan hans Ingólfs, er rétt að byrja. Ásgeir birti í morgun pistil þar sem hann ber af sér ásakanir Bergsveins Birgissonar um að hann hafi við ritun bókarinnar stuðst við bók hans, Leitin að svarta víkingnum, án þess að minnast á hana. Rakti Bergsveinn ítarlega í greinargerð sem hann birti á Vísir.is einstök atriði sem þar sem hann sakar Ásgeir um að taka hugmyndir sína traustataki án þess að geta heimilda.
Ásgeir svaraði fyrir sig í morgun.
Ásgeir ber meðal annars fyrir sig að hvorki rit hans sé Bergsveins séu fræðirit og í hans bók sé til dæmis ekki heimildaskrá. Hið sama segir dr. Sverrir Jakobsson í viðtali við Fréttablaðið : „Það er yfirlýst í Svarta víkingnum að þetta sé ekki hefðbundið fræðirit og hún er ekki gefin út hjá ritrýndu forlagi,“ segir Sverrir. Sverrir segir ennfremur um bók Ásgeirs:
„Ég verð að segja mér finnist hún ekki minna mikið á Svarta víkinginn, nema að báðir eru mjög trúir á gildi Landnámu sem sögulegrar heimildar, sem er ekki hefðbundin skoðun meðal miðaldasagnfræðinga.“
Þessi punktur þeirra Ásgeirs og Sverris, að bækurnar séu ekki vísindaleg fræðirit, fer mjög fyrir brjóstið á Bergsveini, en hann segir í nýjum pistli um málið:
„Það er hryggilegt að sjá hversu ómálefnalega dr. Ásgeir Jónsson og nú síðast dr. Sverrir Jakobsson hafa valið að svara fyrir meintan hugmyndastuld Ásgeirs úr bók minni Den svarte vikingen (2013) sem kom út í íslenskri gerð árið 2016 undir nafninu Leitin að svarta víkingnum.
Í stað þess að svara málefnalega minni greinargerð sem birtist á Vísi, velja þeir að fara aðra leið, nefnilega að gera mig að alþýðufræðimanni eða ekki „alvöru“ vísindamanni. Ekki er mér ljóst hvort þetta sé gert til að þyrla upp ryki í augu siðanefndar Háskóla Íslands, til þess að málið verði ekki tekið fyrir málefnalega, en hvað sem því líður er átakanlegt að verða vitni að þeirri hugsun sem undir slíkri ásökun hvílir, nefnilega að það sé sjálfsagt að stela af alþýðufræðimanni. Af því hann er ekki alvöru.“
Bergsveinn bendir á að hann sé akademískur fræðimaður og að baki umræddri bók hans liggi áratuga vísindaleg rannsókn: