Þitt nafn bjargar lífi, stærsta mannréttindaherferð í heimi, er 20 ára í dag. Herferðin er nú í fullum gangi og enn er hægt að skrifa undir málefnin á www.amnesty.is. Hver einasta undirskrift skiptir máli. Ekki láta þitt eftir liggja í baráttunni fyrir betri heimi.
Hópurinn kom saman og skrifaði fjölda bréfa í 24 tíma sleitulaust til stjórnvalda og kröfðust lausnar samviskufanga. Alls söfnuðust 2.326 bréf.
Hugmyndin fór á flug á heimsvísu og ári síðar tóku aðgerðasinnar Amnesty International í átján löndum að skipuleggja slíka herferð í eigin landi. Herferðin hefur þróast og stækkað í gegnum árin en grunnurinn er sá að fólk hvaðanæva úr heiminum sameinast um þá hugmynd að samstaða fyrir réttlátari heimi sé möguleg þrátt fyrir fjarlægðir.
Til marks um hversu mjög Þitt nafn bjargar lífi hefur vaxið sendu einstaklingar um heim allan 4,5 milljónir bréfa, korta, smáskilaboða og undirskrifta í þágu tíu þolenda mannréttindabrota árið 2020. Íslendingar létu heldur ekki sitt eftir liggja en alls voru send rúmlega 70.000 undirskriftir á bréf til stjórnvalda þar sem þau voru krafin úrbóta.
Í krafti fjöldans eru þessar undirskriftir mikilvægt þrýstiafl sem getur breytt lífi þolenda mannréttindabrota. Það er í grunninn hugmyndin á bak við Þitt nafn bjargar lífi, sem hefur í tvo áratugi haft gríðarleg áhrif og með tímanum orðið að stærstu mannréttindaherferð í heimi.
Sem dæmi um raunverulegar breytingar á lífi þolenda mannréttindabrota má nefna mál Nassimu al-Sada, baráttukonu fyrir frelsi kvenna í Sádí-Arabíu en hún var handtekin og fangelsuð árið 2018 fyrir friðsama mannréttindabaráttu. Nassima varð frjáls á ný í júní 2021, þökk sé stuðningi frá 777.611 einstaklingum víðs vegar að úr heiminum í Þitt nafn bjargar lífi á síðasta ári. Hún er nú komin í faðm fjölskyldu og vina á ný. Mál hennar er eitt af mýmörgum sem ber vitni um áhrifamátt herferðarinnar.