Nýverið birtu vísindamennirnir niðurstöður rannsóknar sinnar í tímaritinu Veterinary Pathology. Þær styðja kenningu Lundúnalögreglunnar um að engin raðkattamorðingi hafi verið að verki og að raunar hafi mannshöndin ekki komið nærri drápum á köttunum.
Kettirnir voru drepnir á ýmsum stöðum í borginni og fjölmiðlar veltu því upp að „kattadrápari“ gengi laus í borginni. Margir óttuðust að fólki stafaði ógn af þessum manni. Lögreglan hóf umfangsmikla rannsókn sem gekk undir nafninu „Operation Takahe“.
En niðurstaða DNA-rannsókna á 32 kattarhræjum, sem lögreglunni voru afhent, sýndu að mannshöndin hafði ekki komið nærri drápunum á köttunum. Vísindamennirnir leituðu einnig að lífsýnum úr refum, hundum og greifingjum á hræjunum og krufðu þau.
Niðurstaða þeirra er að lífsýni úr refum voru á hræjunum og segja þeir að refir hafi drepið kettina. Þeir segja einnig að áverkar á hræjunum passi við að refir hafi drepið þá.
Hvað varðar þau hræ sem engir greinilegir áverkar eftir refi fundust á segja þeir að þeir kettir hafi drepist við ákeyrslu og lifrarbilun eftir að hafa drukkið frostlög. Átta af köttunum 32 höfðu glímt við hjartasjúkdóm.