Fyrr í vikunni fjallaði DV um héraðsdómsmál einkahlutafélagsins Rosenberg gegn Bjarna Jónssyni. Málið varðaði pening sem Haukur Þór Adolfsson lánaði Bjarna en fékk ekki greiddan til baka.
Í dómnum kom fram að Haukur og Bjarni hefðu verið vinir en að það samband hafi slitnað vegna deilna um uppgjör byggingu fjölbýlishúss á Akranesi. Bjarni tapaði málinu sem um ræðir og var dæmdur til að greiða Hauki upphæðina til baka með vöxtum.
Við nánari athugun komst DV að því að þetta var ekki fyrsta dómsmálið sem Bjarni tapar á þessu ári, reyndar er málið sem Rosenberg höfðaði gegn Bjarna það fjórða sem höfðað er gegn honum á þessu ári. Bjarni hefur tapað öllum fjórum málunum og verið dæmdur til að greiða tugi milljóna.
Ljóst er að hann hefur skilið eftir sig sviðna jörð í viðskiptum sínum.
Fyrsta dómsmálið gegn Bjarna í ár var tekið fyrir í febrúar. Málið er að vísu ekki gegn Bjarna sjálfum heldur er það gegn fyrirtæki hans, Skarðseyri ehf. Málarafyrirtækið Fínka ehf. stefndi fyrirtæki Bjarna vegna ógreiddra reikninga. Reikningarnir voru fyrir málun á íbúðum og sameign í fasteign á Akranesi. Til að stikla á stóru þá tapaði fyrirtæki Bjarna málinu og var það dæmt til að greiða Fínku 26.712.245 krónur ásamt dráttarvöxtum. Þá var Skarseyri einnig gert að greiða Fínku tvær og hálfa milljón í málskostnað.
Annað málið gegn Bjarna á þessu ári var tekið fyrir í apríl. Það mál var bæði gegn Bjarna sjálfum og fyrirtæki hans. Reyndar fjallar málið einmitt um það fyrirtæki, það er að segja Skarðseyri ehf.
Guðmundur Baldvin Ólason höfðaði mál gegn Bjarna og Skarðseyri vegna svika er varða hlut í fyrirtækinu. Þann 12. febrúar árið 2009 afsalaði Már Jóhannsson, fyrrum eigandi Skarðseyrar, 500.000 króna hluti sínum í fyrirtækinu. Hlutirnir skiptust jafnt á milli þeirra Guðmundar og Bjarna, hvor um sig fékk 250.000 króna hlut í fyrirtækinu.
Eftir þetta var Bjarni tilgreindur sem formaður stjórnar fyrirtækisins en Guðmundur var tilgreindur sem framkvæmdastjóri og varamaður í stjórninni.
Meðal málsgagna sem lögð voru fyrir dómi eru ársreikningar Skarðseyrar fyrir árin 2011 og 2012. Árið 2011 eru þeir Bjarni og Guðmundur báðir skráðir með 50% eignarhlutdeilt en í ársreikningnum ári síðar er Bjarni einn nafngreindur sem 100% eigandi fyrirtækisins.
Báðir ársreikningarnir voru áritaðir af Má Jóhannssyni, viðurkenndum bókara og fyrrum eiganda Skarðseyrar, sem kom fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og gaf vitnaskýrslu. Már segist hafa breytt upplýsingum um eignarhald fyrirtækisins í góðri trú og treyst orðum Bjarna um að hann væri orðinn eini eigandi þess. Í skýrslu fyrir dómi segir Már að Bjarni hafi þó ekki afhent honum nein skjöl til staðfestingar á því að Guðmundur hafi selt Bjarna helmingshlut sinn í Skarðseyri.
Tilgreining Bjarna sem eiganda alls hlutafjárins er því röng og ekki liggur annað fyrir en að Guðmundur sé enn 50% eigandi að félaginu.
Dæmt var Guðmundi í vil en nú viðurkennist að hann teljist eigandi sinna 250.000 hluta í Skarðseyri. Skarðseyri og Bjarna var gert að greiða Guðmundi 900.000 krónur í málskostnað.
Þann 14. júlí á þessu ári var þriðja málið gegn Skarðseyri svo tekið fyrir dómi. Í því máli var fyrirtækið Virkjun ehf. að stefna Skarðseyri fyrir að greiða ekki reikninga vegna framkvæmda í fjölbýlishúsinu á Akranesi. Stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Virkjunar er Haukur Þór, eigandi Rosenberg, en þetta mál er einmitt uppgjörið sem olli vinslitunum á milli Hauks og Bjarna.
Samkvæmt dómnum átti Skarðseyri eftir að borga tæpar 19 milljónir til Virkjunar vegna framkvæmdanna. Bjarni vildi meina að Skarðseyri hefði ofgreitt Virkjun fyrir verkefnið og vildi meina að hann ætti í raun gagnkröfu á hendur Virkjunar eða þá rétt til afsláttar.
Skarðseyri var dæmt til að greiða Virkjun alls 17.663.621 krónu ásamt dráttarvöxtum. Þá var fyrirtækinu einnig gert að greiða Virkjun 744 þúsund krónur í málskostnað.
Fjórða málið sem Bjarni tapaði í ár var svo málið sem Rosenberg höfðaði gegn honum vegna lánsins sem Bjarni greiddi ekki til baka.
Ljóst er að Bjarni hefur, bæði í sínu nafni og í nafni fyrirtækisins síns, verið dæmdur til að greiða tugi milljóna á þessu ári. Hann og fyrirtækið þurfa að greiða samtals tæpar 35 milljónir auk dráttarvaxta vegna reikninganna og lánsins en þá hefur hann þurft að greiða alls 4.544.000 krónur í málskostnað.
Þessar upphæðir hafa reynst fyrirtækinu Skarðseyri ehf. of stórar þar sem fyrirtækið var úrskurðað gjaldþrota þann 1. desember síðastliðinn.