fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Fókus

Kristinn búinn að bóka flugið heim

– Ameríkufarinn Kristinn Jón Guðmundsson ætlar að kveðja New York í febrúar

Ritstjórn DV
Laugardaginn 30. janúar 2016 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er búið að kaupa flugmiða heim í kringum 20. febrúar og í þetta skiptið er ekki hægt að hætta við því ég er búinn að tilkynna þetta á ýmsum stöðum,“ segir Kristinn Jón Guðmundsson, aðspurður hvort eitthvað sé að frétta af áformum hans um að flytja heim eftir sjálfskipaða útlegð í New York sem hófst haustið 1986.

„Tilfinningarnar eru blendnar. Annars vegar er mikil tilhlökkun en einnig depurð að sumu leyti því ég er að fara að skilja við marga sem ég mun að öllum líkindum aldrei sjá aftur.“

Núna verður þetta að gerast enda eru margir heima á Íslandi sem ég þarf að hitta áður en það verður of seint.

Stendur við loforðið

Kristinn sagðist í viðtali í jólablaði DV vera staðráðinn í að snúa aftur heim og segja skilið við New York þar sem hann hefur búið síðustu 29 ár sem ólöglegur innflytjandi. Var þar stiklað á stóru um það sem á daga Kristins í stórborginni hefur drifið. Hann starfar í dag sem sendisveinn hjá efnalauginni Perry Process Cleaners á Manhattan en hélt upphaflega til borgarinnar í þeim tilgangi að svala útþrá og leita að ástinni. Fjölskylda hans og vinir hafa áður keypt fyrir hann flugmiða heim og þegar það viðtal var tekið stefndi hann að heimför í lok þessa mánaðar. Kristinn er staðráðinn í að standa við orð sín en stefnir nú að heimkomu eftir rúmar þrjár vikur.

„Núna verður þetta að gerast enda eru margir einstaklingar heima á Íslandi sem ég þarf að hitta áður en það verður of seint. Ég geri ráð fyrir að ég verði mjög ringlaður fyrstu dagana og vikurnar en ég hef ekkert skipulagt hvernig fyrstu dagarnir heima verða,“ segir Kristinn og bætir við að hann eigi síður en svo erfitt með að skipta um umhverfi.

„Ég er hins vegar svo fastur og vanur þessari vinnu sem ég er í en hún er sú eina sem ég hef haft þar sem menn kunna að meta það sem ég geri eða þar sem er þörf fyrir mig.“

Kristinn hefur ekki sagt vinnuveitanda sínum, sem greiðir honum 20 Bandaríkjadali fyrir dagsvinnu, um 2.600 krónur, og borgar fyrir herbergi sem hann leigir í New Jersey, að hann hafi tryggt sér flugmiða heim.

„Hann gæti hugsanlega látið mig flakka. Þá þarf ég að finna mér eitthvað að gera í þrjár vikur og gæti þurft lán. Því yrði ég ekki hrifinn af, því lán þarf að borga aftur. Ég lifi einungis frá degi til dags. Það var nú rafmagnslaust hérna í gær og allir sendir heim klukkan 14.02. Ég veit því ekkert hvað ég fæ borgað fyrir þann dag.“

Heldur sínu striki

Sendisveinninn svarar aðspurður að hann hlakki mikið til að fá aftur hangikjöt, bjúgu og jafning. Kristni þykir líklegt að hann þurfi að fá sér síma í fyrsta skipti þar sem hann eigi svo marga vini og kunningja sem muni vilja hafa samband.

„Ætli ég fari svo ekki í Fossvogskirkjugarð en ég ól nú manninn þar,“ segir Kristinn og rifjar upp að hann hafi unnið í garðinum.

„Nú eru komnar þarna ýmsar ömmur og afar, sem voru sprelllifandi, með leiði. Svo ætla ég að heimsækja ákveðna menn sem eru í slæmu ástandi og einnig Halldór Carlsson, sem er einn af mínum æskuvinum og sá sem hóf að vinna að því að koma mér aftur heim. Það hefur nú loksins borið árangur. Ég kem með flestar bækurnar mínar heim og ég ætla mér að halda mínu striki í mínum rifnu fötum og vona að ég verði ekki settur inn á Klepp,“ segir Kristinn og hlær.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Prestur rekinn eftir að hafa hleypt Sabrinu Carpenter inn í kirkjuna

Prestur rekinn eftir að hafa hleypt Sabrinu Carpenter inn í kirkjuna
Fókus
Fyrir 4 dögum

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það
Fókus
Fyrir 4 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“