Starf Viktoriu Kashirina, 23 ára kennara í Rússlandi, er í hættu vegna myndbands sem hún birti á Instagram-síðu sinni en myndbandið er sagt vera „erótískt“.
Í myndbandinu má sjá kennarann klæða sig úr kápunni sinni og stilla sér í kjölfarið upp í nærfötunum. Hún sést snerta líkama sinn í myndbandinu auk þess sem hún nuddar sér við gólfið og liggur í rúmi sínu.
Myndbandið hefur ollið fjaðrafoki hjá foreldrum nemenda Viktoriu. „Viltu vinsamlegast ekki birta svona gróf myndbönd eða loka samfélagsmiðlunum þínum,“ segir til að mynda móðir eins nemanda sem lærir rússnesku og bókmenntir hjá Viktoriu. „Dóttir mín horfði á þetta og þú ert greinilega að fá virðingu frá henni – en ekki sem kennari.“
Viktoria lætur ummæli foreldra lítið á sig fá. Hún segist ætla að loka á nemandann sem fylgir henni á Instagram en svo bendir hún móðurinni á að hún ætti kannski að fylgjast betur með því sem dóttir hennar gerir á netinu. Þá þvertekur hún fyrir að hafa gert eitthvað rangt með birtingu myndbandsins. „Ég er búin að vera súludansari í nokkur ár og mig er búið að dreyma um gera svona myndband í langan tíma,“ segir hún.
„Móðir nemandans krafðist þess að ég myndi loka aðgangnum. Ég tók það ekki í mál og lokaði þess í stað aðgangnum mínum fyrir mæðgunum. En það var nú þegar of seint, skólastjórinn skrifaði mér og krafðist þess að ég myndi fjarlægja myndbandið þar sem það færi um eins og eldur í sinu milli foreldra barna í skólanum.“
Skólastjórinn sagði að hún væri búin að búa til vandamál sem skólinn verður að bregðast við. „Ég á sjálfur tvö börn og ég skil hvernig þessum foreldrum líður,“ sagði skólastjórinn í skrifum sínum til Viktoriu. „Ef þú vilt sanna þig sem súludansara þá höfum við val um að fylgja þér ekki niður þá leið. Þú ert rekin. Þetta er fullkomið tilefni til að sýna foreldrunum að við fylgjum ákveðnum siðferðisreglum.“
Þrátt fyrir að skólastjórinn hafi rekið Viktoriu þá starfar hún ennþá í skólanum. Hún heitir því að fara með málið fyrir dómstóla ef uppsögn hennar verður að veruleika þar sem ekkert var tekið fram um takmarkanir varðandi samfélagsmiðla þegar hún var ráðin sem kennari við skólann.