Jóhann Jónas Ingólfsson var um miðjan nóvember dæmdur í 11 mánaða skilorðsbundið fangelsi og til þess að greiða ríkinu 111 milljónir í sekt vegna meiriháttar skattalagabrota og fjárþvætti tengdu því broti.
Dómurinn féll 17. nóvember síðastliðinn en dómurinn var aðeins nýlega birtur.
DV sagði frá því í apríl að Jóhann hefði verið ákærður af héraðssaksóknara fyrir meiri háttar brot á skattalögum og peningaþvætti. Rifjaði DV þá upp skrautlegan sakaferil Jóhanns, en hann hefur meðal annars verið dæmdur fyrir kynferðisbrot, fíkniefnasmygl og flúði eitt sinn afplánun fangelsisrefsingar út fyrir landsteinana.
Í samtali við DV í apríl sagðist Jóhann vera saklaus af ákæru héraðssaksóknara, að hann myndi neita sök og taka reffilega til varna í málinu og að hann væri sannfærður um að hann yrði sýknaður þegar saksóknari og dómari hefðu öll gögn í málinu.
Jóhann játaði sök fyrir dómi.
Sem fyrr sagði þótti dómara hæfileg refsing 11 mánaða skilorðsbundið fangelsi og 111 milljóna sekt. Jóhann hefur fjórar vikur til þess að greiða sektina en sæta ella 360 daga fangelsi.
Dóminn má sjá hér í heilu lagi.
Jóhann rak fyrirtækið Já iðnaðarmenn sem DV hefur jafnframt fjallað ítarlega um. Er Jóhann sagður hafa skilið eftir sig sviðna jörð um víðan völl vegna reksturs Já iðnaðarmanna. Var nafni félagsins svo að endingu breytt rétt fyrir gjaldþrot og nýtt félag stofnað utan um reksturinn með álíku nafni. Hafði DV fyrir því heimildir þá að rekstur Jóhanns hefði verið ítrekað kærður til lögreglu vegna meintra brota á iðnaðarlögum og að kvartað hefði verið til eftirlitsaðila undan viðskiptaháttum Jóhanns.
„Ég er búinn að vera í þessum bransa í þrjátíu ár og ég hef aldrei kynnst öðrum eins siðblindingja,“ sagði Ingólfur Steingrímsson, eigandi Kvarna ehf., við DV árið 2017. Félagið leigir meðal annars út vinnupalla fyrir verktaka og hefur Ingólfur brennt sig á viðskiptum sínum við Jóhann. „Hann skuldar okkur tæplega sex milljónir auk þess sem hann er enn með palla fyrir um tvær milljónir króna. Þegar við höfum gengið á hann þá vísar hann bara á skiptastjóra þrotabúsins og virðist telja að málið komi sér ekki lengur við,“ sagði Ingólfur. Sömu sögu var raunar að segja af samkeppnisaðila Kvarna, Stoðir pallaleigu. „Við höfum unnið saman við að hafa upp á pöllunum sem Jóhann hefur leigt af okkur. Við höfum verið að finna þá um allan bæ þar sem Jóhann er með verk í gangi á nýju kennitölunni,“ sagði Ingólfur enn fremur.
Þá var Jóhann á 10. áratug síðustu aldar dæmdur fyrir smygl á fíkniefnum og nauðgun. Mun Jóhann hafa klætt sofandi konu úr fötunum og haft við hana samræði gegn vilja hennar. Er hann afplánaði fangelsisdóm fyrir nauðgunina kynntist hann Steini Ármanni Stefánssyni.
Í febrúar 1991 var Jóhann gripinn með þrjú kíló af hassi og til þess að milda refsingu vegna smyglsins ljóstraði hann upp um stærra fíkniefnamál Steins Ármanns sem hann kynntist í hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Það mál átti eftir að verða þekkt sem Stóra-kókaínmálið.