Töluvert er um útköll björgunarsveita vegna óveðurins sem nú gengur yfir vestanhluta landsins. Hafa þakplötur, þakklæðningar og lausamunir fokið. Þess má geta að vinnuskúr fauk á hliðina í Mosfellsbæ og gámur fauk við höfnina í Grindavík. Tilkynning frá Landsbjörgu um málið er eftirfarandi:
„Fyrsta útkall björgunarsveita í dag vegna óveðurs barst í Borgarnesi rétt fyrir ellefu, þar var tilkynnt um fok á þakplötum, þakklæðningum og lausamunum. Um klukkan tólf bætti töluvert í og hafa björgunarsveitir víða á suðvesturhorni landsins verið kallaðar út (Kjarnes, Reykjavík, Grindavík, Suðurnes, Mosfellsbær og Hafnarfjörður). Í öllum tilfellum er um að ræða foktjón vegna óveðurs, þakklæðningar, girðingar, ruslatunnuskýli, garðskúr og aðrir lausamunir. Vinnuskúr fauk á hliðina í Mosfellsbæ og gámur að fjúka við höfnina í Grindavík.
Við hvetjum fólk til að fara varlega og vera ekki á ferðinni að óþörfu á meðan mesta veðrið gengur yfir.“