Fréttablaðið skýrir frá þessu. Fram kemur að í júní hafi netföngum skjólstæðinga stofnunarinnar verið lekið í fjölpósti sem varðaði endurupptöku umsókna um greiðslur í sóttkví. Í október varð síðan annar brestur af sama toga þegar netföngum enskumælandi skjólstæðinga var lekið í fjölpósti sem varðaði geðheilsumál. Fimm dögum síðar sendi Vinnumálastofnun afsökunarbeiðni frá sér.
Fréttablaðið hefur eftir einum þeirra sem varð fyrir lekanum að tölvupósturinn hafi verið sendur á enskumælandi notendur og muni örugglega hafa áhrif á traust fólks til íslenskra stofnana. Hann sagði að málið sé mjög óþægilegt og auk þess hafi verið farið óvarlega með persónuupplýsingar í Facebookhópum á vegum stofnunarinnar en þeir voru notaðir í tengslum við sértæk úrræði. Eftir kvartanir frá notendum var aðgangsstillingum hópanna breytt.
Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, sagði í samtali við Fréttablaðið að málið væri í lögbundnu ferli og hafi verið tilkynnt Persónuvernd.
Vigdís Eva Líndal, sviðsstjóri hjá Persónuvernd, sagði að tilkynning hafi borist um öryggisbrest í október og málið sé í farvegi. Hún sagði stefnu stofnunarinnar vera að ljúka afgreiðslu á öllum tilkynningum innan sex vikna en þetta mál sé komið yfir þann tíma. Hún sagði of snemmt að tjá sig um alvarleika málsins.