Þetta kemur fram í aðvörun sem stofnunin sendi heilbrigðisyfirvöldum um allan heim í gær. Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri WHO, var ávarpaði World Health Assembly sem fundaði í gær og sagði að afbrigðið væri áminning um að heimsfaraldurinn sé ekki afstaðinn. „Hann verður ekki afstaðinn fyrr en bóluefnaskortinum er lokið,“ sagði hann og vísaði þar til þeirrar nöturlegu staðreyndar að fátækustu ríki heimsins hafa aðeins fengið 0,6% af bóluefnum heimsins gegn kórónuveirunni en G20 ríkin hafa fengið 80% af bóluefnunum.
Hann hvatti ríki heims til að halda áfram að reyna að fá alla þegna sína til að láta bólusetja sig.
Enn er lítið vitað um Ómíkronafbrigðið nema hvað að það er bráðsmitandi, jafnvel enn meira smitandi en Deltaafbrigðið sem er ráðandi í dag. Fregnir hafa þó borist um að Ómíkron valdi vægari sjúkdómseinkennum en fyrri afbrigði en enn á WHO eftir að staðfesta þær fregnir. Vitað er að afbrigðið býr yfir fleiri stökkbreytingum en önnur afbrigði en það getur hugsanlega valdið vandræðum í tengslum við ónæmi fólks, hvort sem það er eftir bólusetningu eða að sýkingu afstaðinni.