Þriggja herbergja íbúð í kjallara í Blönduhlíð er nú fáanleg fyrir tæpar 50 milljónir en íbúðin er 83,6 fermetrar að stærð. Það er þó ekki staðsetningin eða fermetraverðið sem hefur vakið hvað mesta athygli við umrædda íbúð heldur er það baðkarið sem finna má í baðherbergi hennar.
Sjá má baðkarið á myndinni af baðherberginu sem finna má í auglýsingu fasteignarinnar. Á myndinni virðist baðkarið vera nokkuð eðlilegt en þegar það er skoðað úr öðru sjónarhorni sést að það er mun minna en það virðist vera í auglýsingunni.
Margrét nokkur fór að skoða íbúðina á dögunum og tók mynd af baðkarinu og birti á samfélagsmiðlinum Twitter samhliða myndinni úr auglýsingunni. „Fór að skoða íbúð sem var með baðkari sem leit æðislega út á fasteignamyndinni,“ skrifar Margrét í færslunni sem hefur vakið töluverða athygli á Twitter, yfir þrjú hundruð manns hafa sett hjarta við færsluna.
Garðar Gunnlaugsson, fyrrverandi atvinnumaður í knattspyrnu, er á meðal þeirra sem skrifa athugasemd við færslu Margrétar. „Þetta er bara aukavaskur,“ skrifar Garðar. „Baðkar fyrir maura?“ er svo spurt að í annarri athugasemd.
Fór að skoða íbúð sem var með baðkari sem leit æðislega út á fasteignamyndinni 🙃 pic.twitter.com/rcZJTsdVtd
— Margrét? (@MargretAdalh) November 29, 2021