fbpx
Laugardagur 11.janúar 2025
Fréttir

Orðið á götunni: Fýla meðal Sjálfstæðismanna sem vildu heilbrigðismálin

Ritstjórn DV
Laugardaginn 27. nóvember 2021 22:06

Myndin er samsett.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þó nokkrar óánægju gætir nú meðal Sjálfstæðismanna með að hafa „misst“ heilbrigðisráðuneytið, þó misst sé auðvitað ekki rétt, enda ráðuneytið aldrei þeirra. Sterkur orðrómur hafði þó gengið milli manna í dágóðan tíma um að Sjálfstæðismenn myndu fá ráðuneytið. Svo sterkur raunar að margir upplifa nú að þeir hafi, sem áður sagði „misst það.“

Segja þessir sömu Sjálfstæðismenn að eftir fjögur ár af hreinræktuðum sósíalisma í heilbrigðismálum hins opinbera og uppgjafartón í málefnum Landspítalans væri kominn tími á róttækar aðgerðir, og þá með aukinni aðkomu einkageirans. Hafði nafn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar verið nefnt í þessu samhengi.

Erfitt er að ímynda sér meiri andstæður í pólitík en Guðlaug Þór og Svandísi.

Þessar óánægjuraddir heyrðust á fundi Sjálfstæðismanna nú í kvöld, en rík hefð er fyrir því að fylgja stefnu forystufólks flokksins og kaus því „yfirgnæfandi meirihluti“ viðstaddra með stjórnarsáttmálanum og tillögum Bjarna um aðkomu Sjálfstæðismanna að næstu ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.

Aðrir sjá pólitíska refskák í útspili Bjarna, en með því að fela Framsóknarmönnum heilbrigðismálin losnar Bjarni við umdeildan málaflokk án þess þó að framhald verði á festuleysi sem einkennt hefur ráðuneytið undanfarin ár. Með öðrum orðum, Framsókn, ekkert vesen og engin Svandís er betra en Sjálfstæðisflokkur, mikið vesen og engin Svandís.

Eitt ljós er þó í myrkri heilbrigðisþyrstra Sjálfstæðismanna, því orðrómur er um að Willum Þór Þórsson verði næsti heilbrigðisráðherra. Ánægja er með störf Willums úr fjárlaganefnd á síðasta kjörtímabili þar sem hann gegndi formennsku. Þá hefur Willum virkað vel á Sjálfstæðismenn og er pólitík hans sögð til hægri við hinn hefðbundna Framsóknarmann. Sé það rétt, líkt og sagt er, að Vinstri grænir beittu sér gegn því að láta Sjálfstæðismönnum ráðuneytið í té af ótta við frjálshyggju-Gulla gæti Willum reynst vinstri mönnum skammgóður vermir.

Hver sá sem tekur við keflinu í ráðuneyti heilbrigðismála mun allavega eiga nóg fyrir stafni næstu misseri. Ástandið á Landspítala og heilbrigðisstofnunum um land allt hefur sjaldan verið verra og þolinmæði þjóðarinnar með harðar aðgerðir Svandísar og Þórólfs er óneitanlega brothættari nú en áður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Efling segir SVEIT ætla að njósna um starfsfólk veitingahúsa og hefur kært félagið til Persónuverndar

Efling segir SVEIT ætla að njósna um starfsfólk veitingahúsa og hefur kært félagið til Persónuverndar
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Fíkniefnaneysla meginorsök banaslyssins í Lækjargötu

Fíkniefnaneysla meginorsök banaslyssins í Lækjargötu