Héraðsdómur dæmdi í gær karlmann í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi en maðurinn var fundinn um að hafa í 45 skipti farið í verslanir á höfuðborgarsvæðinu og stolið þaðan vörum fyrir hátt í þrjár milljónir króna. Tekið er fram að maðurinn hafi fram að því haft hreint sakavottorð. Þá játaði maðurinn sök, sem var metið honum til refsilækkunar.
Af lestri dómsins má ráða að maðurinn virðist hafa einbeitt sér að tilteknum vörum fyrst og fremst. Þannig beindist 21 ránsferð af þeim 45 sem hann var dæmdur fyrir að ÁTVR. Hafði hann þaðan á brott með sér í hvert skipti vörur fyrir 16-47 þúsund krónur. Þjófurinn virðist hafa einbeitt sér helst að sterka víninu enda Bombay Sapphire, Havana Club, Scottish Leader, Talisker, Absolut, Finlandia og Captain Morgan á meðal þess sem hvarf úr versluninni.
Þá fór maðurinn tíu ránsferðir í Hagkaup og hafði á brott með sér hljómplötur og ilmvötn. Maðurinn stal svo sex sinnum úr verslunum Lyfju, aðallega kremum og snyrtivörum og loks átta sinnum úr verslunum ELKO.
Til viðbótar við skilorðsbundinn dóm var maðurinn dæmdur til þess að greiða ÁTVR um 570 þúsund, Högum 667 þúsund, Lyfju 442 þúsund og lögmanni sínum 483 þúsund krónur í málsvarnarlaun fyrir störf verjanda síns.