„Því miður sigraði Joe Biden í kosningunum og það er sársaukafullt að horfa upp á það. Hann er forseti. Við vitum það,“ sagði McDaniel á morgunverðarfundi á vegum the Christian Science Monitor í Washington D.C. CNN skýrir frá þessu.
Landsstjórn Repúblikanaflokksins hefur mánuðum saman gagnrýnt Biden í fréttatilkynningum en ummæli McDaniels eru þau fyrstu þar sem formaður flokksins viðurkennir að Biden hafi sigrað í kosningunum.
Þrátt fyrir ummæli hennar hefur ekki dregið úr viðleitni Donald Trump, sem tapaði fyrir Biden, við að dreifa samsæriskenningum og lygum um niðurstöður kosninganna. McDaniel sagði á fundinum að Trump hafi mikil áhrif innan flokksins. Hún vildi ekki svara spurningu um hvort tilraunir Trump til að fá Mike Pence, varaforseta, til að stöðva samþykkt þingsins á kjöri Biden hafi verið andstæðar stjórnarskránni.