Í fyrstu töldu sumir að holurnar væru stærstu mannvirkin frá fornöld í Bretlandi en aðrir töldu að hér væri eingöngu um holur að ræða sem hefðu myndast af náttúrulegum orsökum. En nú sýna niðurstöður nýrrar rannsóknar, þar sem nýrri ratsjártækni var beitt, að holurnar eru manngerðar. The Guardian skýrir frá þessu.
Haft er eftir Vincent Gaffney, fornleifafræðingi við Bradford University sem stýrði rannsókninni sem varð til þess að holurnar fundust, að nýja rannsóknin staðfesti að holurnar séu manngerðar en þær eru um 10 metrar að breidd og 5 metrar djúpar.
„Við erum búin að rannsaka um helminginn af þeim og þær eru allar eins. Það hlýtur að þýða að þær séu allar hluti af sömu framkvæmdinni,“ sagði Gaffney.
Með nýju ratsjártækninni gátu vísindamenn séð hvort jarðrask hefði átt sér stað í gegnum tíðina eða hvort að jarðvegurinn hefði verið óhreyfður í mörg þúsund ár. Þeir gátu einnig notað aðferð sem gerir þeim kleift að sjá hvenær jarðvegur varð síðast fyrir geislum sólarinnar en með þeirri aðferð var hægt að aldursgreina holurnar.
Rannsóknin leiddi í ljós að holurnar eru allar mjög líkar og að þær voru grafnar á svipuðum tíma og því telja vísindamennirnir að þær séu manngerðar. Ef þær hefðu myndast við jarðsig væru þær misstórar.