„Ég les núna „This Child Will be Great“, sjálfsævisögu Ellen Johnson Sirleaf. Hún var forseti Líberíu þar til fyrir skemmstu, fyrsta konan sem náði kjöri í það embætti í Afríkuríki og handhafi friðarverðlauna Nóbels árið 2011. Mér finnst bækur um stjórnmál skemmtilegar, ekki síst um konur á þeim vettvangi. Saga Johnson Sirleaf er stórmerkileg, saga ótrúlegrar þrautseigju og viljastyrks. Næst á náttborðinu bíður svo skáldsaga eftir Susan Shreve. Hún verður í hópi ellefu leiðbeinenda í ritlistarbúðunum Iceland Writers Retreat sem ég stofnaði með samstarfskonu minni, Ericu Green. Ég reyni ætíð að lesa að minnsta kosti eina bók eftir hvern höfund sem kemur og kennir hjá okkur,“ segir Eliza Reid forsetafrú.