Eiður Smári Guðjohnsen hefur látið af störfum sem aðstoðarþjálfari A-landsliðs karla. Samkvæmt heimildum DV hefur málið þróast hratt síðustu daga.
Morgunblaðið fjallaði fyrst um málið og sagði frá því að málið tengdist vandamálum Eiðs Smára utan vallar.
Á mánudagsmorgun fékk DV ábendingu um að KSÍ ætlaði að nýta sér uppsagnarákvæði í samningi Eið Smára frá háttsettum aðila í íslenskum fótbolta. Rætt var við Vöndu Sigurgeirsdóttir formann KSÍ og Ásgrím Helga Einarsson formann landsliðsnefndar á mánudag. Bæði fóru í felur og vildu ekkert tjá sig um málið.
Endalok Eiðs Smára hjá landsliðinu tengjast gleðskap þar sem leikmenn, þjálfarar og starfslið KSÍ hittist eftir leik í í Norður-Makedóníu fyrr í þessum mánuði. Þetta herma heimildir DV. Liðið lauk þar leik í undankeppni HM og bauð Knattspyrnusambandið í glas.
Flestir á svæðinu fengu sér 1-2 drykki að leik loknum en einhverjir sátu lengur. Samkvæmt heimildum DV átti Eiður Smári samtal við Vöndu á mánudag þar sem þau ræddu málið. Heimildarmenn DV úr innsta hring landsliðsins telja þó að Eiður Smári hafi ekki farið yfir nein mörk þetta kvöld í Norður-Makedóníu.
Einn leikmaður landsliðsins er þó undir smásjá sambandsins en sá er sagður hafa farið hressilega yfir þau mörk sem voru sett þegar Knattspyrnusambandið bauð í glas. Samkvæmt heimildum DV var leikmaðurinn enn í annarlegu ástandi þegar liðið ferðaðist heim á leið snemma morguns þann 15 nóvember.
Eiður Smári var sendur í tímabundið leyfi í sumar frá störfum sem aðstoðarþjálfari landsliðsins. Fékk hann skriflega áminningu frá Guðna Bergssyni þá formanni KSÍ og hans stjórn vegna hegðunar utan vallar.
Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ var með í för í ferðinni og hefur skoðað málið frá heimkomu. „Ég get ekki tjáð mig um þetta, við erum með þetta prinsipp að tala ekki um starfsmannamál,“ sagði Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ í samtali við DV á mánudag. Ásgrímur Helgi Einarsson formaður landsliðsnefndar varð flóttalegur í símann á mánudag og vlidi slíta samtalinu sem fyrst.
Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari og yfirmaður knattspyrnumála hefur ekki svarað í símann í þrjá daga vegna málsins. Arnar er með sama uppsagnarákvæði í samningi sínum en árið hefur verið gríðarlega erfitt fyrir A-landslið karla.