Í gær greindust tæplega 48.000 með veiruna og 307 létust af völdum COVID-19. Þýsk yfirvöld hafa biðlað til fólks um að láta bólusetja sig. Í sambandsríkjunum sextán er nú reynt að rjúfa smitkeðjurnar með því að bjóða fólki upp á örvunarskammt af bóluefni, þriðja skammtinn, og með því að herða sóttvarnaaðgerðir og með því að biðla til óbólusettra um að láta bólusetja sig.
Jens Spahn, heilbrigðisráðherra, sagði á fréttamannafundi í gær að allir þeir sem geta verndað sjálfa sig með því að láta bólusetja sig eigi að gera það, að öðrum kosti muni það hafa alvarlegar afleiðingar.
„Líklega munu allir í Þýskalandi, þetta segi ég með ákveðinni kaldhæðni, vera bólusettir, búnir að ná sér eftir smit eða dánir við vetrarlok,“ sagði hann á fundinum að sögn Der Spiegel.
Hann sagði einnig að yfirvöld muni reyna að beina athygli þeirra, sem þiggja örvunarskammt, að bóluefninu frá Moderna. Ástæðan er meðal annars að Þjóðverjar eiga á hættu að brenna inni með um 16 milljónir skammta af bóluefninu frá Moderna en það rennur út á fyrsta ársfjórðungi 2022.
„Það skiptir miklu máli en er ekki afgerandi. Það sem er afgerandi er að birgðir okkar af Pfizer/BioNTech ganga hratt til þurrðar og frá og með næstu viku getum við ekki gefið meira en tvær til þrjár milljónir skammta af því á viku,“ sagði hann.
Hann sagði einnig að sú sannfæring margra Þjóðverja að bóluefnið frá Pfizer/BioNTech sé betra en önnur sé byggð á misskilningi um áhrif hinna einstöku bóluefna. „Ef Pfizer/BioNTech er svar bóluefnanna við Mercedes þá er Moderna Rolls-Royce,“ sagði hann.
Um 68% Þjóðverja hafa lokið bólusetningu en það er töluvert lægra hlutfall en í flestum öðrum ríkjum Vestur-Evrópu. Mikill munur er á milli sambandsríkjanna og má þar nefna að í Bremen hafa 79,6% lokið bólusetningu en i Sachsen er hlutfallið aðeins 57,7%. 7% þjóðarinnar hafa fengið örvunarskammt.