Þeir hvetja sjónvarpsstöðvar í landinu til að hætta að sýna þætti og kvikmyndir sem skarta konum í einhverjum hlutverkum. Þetta kemur fram í trúarlegum leiðbeiningum sem Talibanar sendu frá sér á sunnudaginn. Það var ráðuneyti dyggða og forvarna gegn löstum sem sendi leiðbeiningarnar út.
Í þeim eru kvenkyns fréttamenn og kynnar í sjónvarpi hvattar til að nota hijab þegar þær eru í útsendingu. „Þetta eru ekki reglur, heldur trúarlegar leiðbeiningar,“ sagði talsmaður ráðuneytisins.
Áður höfðu Talibanar innleitt reglur um klæðaburð kvenna í háskólum.
Þeir höfðu áður lofað að taka ekki upp jafn strangar reglur og voru í gildi þegar þeir voru síðast við völd.
Þeir hafa einnig lofað að tryggja frjálsa starfsemi fjölmiðla en margar fréttir hafa borist um að liðsmenn hreyfingarinnar hafi ráðist á blaðamenn og áreitt þá.
Í fyrrgreindum leiðbeiningum eru sjónvarpsstöðvar einnig beðnar um að sýna ekki kvikmyndir eða þætti þar sem myndir af spámanninum Múhameð eða öðrum áberandi persónum úr íslamstrú eru birtar. Ráðuneytið hvetur einnig til þess að myndir, þar sem andstaða við íslamstrú eða afgönsk gildi kemur fram, verði ekki sýndar.