fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fréttir

Réttað yfir morðingja Freyju Egilsdóttur á morgun – Áður dæmdur fyrir morð

Kristján Kristjánsson
Þriðjudaginn 23. nóvember 2021 06:13

Freyja Egilsdóttir Mogensen. Mynd: Lögreglan á austur Jótlandi

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 7. september 2013 gengu þau Freyja Egilsdóttir og Flemming Mogensen í hjónaband. Þau voru gefin saman í ráðhúsinu í Árósum í Danmörku. Sjö árum og 142 dögum síðar myrti Flemming hana. Þetta var ekki í fyrsta sinn sem hann varð konu að bana því hann myrti tvítuga barnsmóður sína á hrottalegan hátt árið 1995.

Í umfjöllun Ekstra Bladet um málið frá því fyrr á árinu kemur fram að Freyja og Flemming hafi virst hamingjusöm á brúðkaupsmyndinni en nánustu ættingjar höfðu að sögn áhyggjur. Þeir vissu um fortíð Flemming sem hafði myrt tvítuga barnsmóður sína með 18 hnífsstungum í íbúð hennar í Odder. Hann var dæmdur í 10 ára fangelsi fyrir það morð en saksóknari lýsti morðinu sem hreinni aftöku. Þau áttu son saman sem var tveggja ára þegar Flemming banaði móður hans. Í umfjöllun Ekstra Bladet kemur fram að samband feðganna hafi verið gott þrátt fyrir að Flemming hafi banað móður drengsins. Hafi þeir oft verið saman.

Einnig kom fram í umfjöllun blaðsins að Freyju hafi verið kunnugt um fortíð Flemming. Þau kynntust þegar Flemming tók þátt í aðlögunaráætlun fyrir refsifanga sem eru að ljúka afplánun refsidóms. Hann stundaði þá nám. „Hann var ekki ofurvinsæll. En það var ekkert sem maður talaði um. Þetta kom bara einu sinni upp í samkvæmi þar sem Freyja var einnig. Ein frænka spurði skyndilega hvort hún hefði ekki áhyggjur af að hann hefði drepið móður drengsins. Svarið var: „Nei, ég hef engar áhyggjur,”” hafði blaðið eftir ættingja Freyju.

Flemming Mogensen. Skjáskot af Instagram.

Ekstra Bladet ræddi við fólk sem kannaðist við Flemming. Enginn vildi kannast við að hann væri skapmaður eða ofbeldishneigður. „Hann var alltaf mjög yfirvegaður. Rólegur,“ sagði samstarfsmaður hans til margra ára. Aðrir sögðu hann vera greindan og duglegan, hann væri með ágætan húmor og hægláta útgeislun, svolítill nörd.

Vinnufélagi hans, hjá samgöngufyrirtæki þar sem hann starfaði síðustu 9 árin, lýsti honum sem staðföstum manni sem stóð fast á sínu og hafi ekki verið banginn við að leita til yfirmanna ef hann var ósáttur. Annar lýsti honum sem „skynsömum“, „svolítið þurrum en viðkunnanlegum“ manni sem hafi gætt vel að einkalífi sínu og ekki sagt mikið um það.

En Flemming reyndist eiga sér mjög dökka hlið og ber morðið á barnsmóður hans árið 1995 vitni um það sem og morðið á Freyju sem var einnig hrottalegt.

Flemming er einkabarn. Hann á tvö börn með Freyju og son með barnsmóður sinni sem hann myrti 1995 eins og áður sagði.

Réttahöld á morgun

Flemming Mogensen er 51 árs. Hann er ákærður fyrir morðið á Freyju, ósæmilega meðferð á líki hennar en hann hlutaði það í sundur og gróf hluta þess í garðinum við heimili hennar.

Hann myrti Freyju þann 29. janúar síðastliðinn á heimili hennar í Malling á Jótlandi. Hann tilkynnti lögreglunni að Freyja væri horfin þann 2. febrúar. Hann sagði lögreglunni að hún hefði ekki skilað sér heim eftir kvöldvakt á hjúkrunarheimilinu sem hún starfaði á. Grunur lögreglunnar beindist strax að Flemming og var hann handtekinn þennan sama dag grunaður um að hafa banað Freyju.

Í ákærunni á hendur Flemming kemur fram að hann sé ákærður fyrir að hafa kyrkt Freyju og að hafa síðan sagað lík hennar í sundur og síðan grafið líkamshluta í garðinum við heimili hennar. Þess er krafist að Flemming verði dæmdur í ævilangt fangelsi en til vara að hann verði dæmdur til ótímabundinnar vistunar í fangelsi. Einnig er gerð krafa um að Flemming greiði bætur en börn hans og Freyju gera kröfu um það. Saksóknari krefst þess einnig að hann verði sviptur erfðarétti, rétti til greiðslu líftrygginga, lífeyris eða annarra réttinda sem tengjast andláti Freyju.

Refsikröfurnar eru þær þyngstu sem hægt er að gera í Danmörku en venja er að krefjast ævilangs fangelsis þegar fólk gerist sekt um morð öðru sinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“
Fréttir
Í gær

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“