Það mætti segja að internetið hafi farið á hliðina þegar Kim Kardashian, 41 árs, og Pete Davidson, 28 ára, héldust í hendur í rússíbana í lok október. Í kjölfarið var greint frá því að þau væru aðeins vinir en fljótlega fór sá orðrómur á kreik að þau væru meira en bara vinir.
Rúmri viku seinna greindi Entertainment Tonight frá því að rómantík væri komin í samband þeirra. En þau staðfestu það hvorug og hafa fjölmiðlar verið á höttunum eftir almennilegri staðfestingu á að orðrómurinn sé sannur.
Það mætti segja að internetið hafi því aftur farið á hliðina þegar það náðist af þeim myndband leiðast á miðvikudaginn síðastliðinn. Kim var klædd gráum joggingbuxum og hvítri samfellu. Pete var í náttbuxum frá SKIMS, fatamerki Kim, og svörtum stuttermabol.
Á myndum sem E! News birtir má sjá parið fara úr bíl og leiðast á meðan þau rölta í annan bíl.
View this post on Instagram
Það sem netverjar hafa tekið sem enn frekari staðfestingu var þegar rapparinn Flavor Flav deildi mynd af sér á Instagram ásamt Kim Kardashian, Pete Davidson og Kris Jenner, móður Kim. Þau voru öll í náttfötum frá SKIMS.
View this post on Instagram
Samkvæmt E! News hafa margir orðið vitni að rómantískum kvöldverðum Kim og Pete undanfarna viku, en Pete var í heimsókn í Los Angeles. Hann býr í New York.
Kim Kardashian var með Kanye West en þau skildu að borði og sæng fyrir tæpu ári. Hann er sagður vera með fyrirsætunni Vinetria. Pete var í sambandi með leikkonunni Phoebe Dynevor í fimm mánuði, en því lauk í ágúst síðastliðnum.
Sjá einnig: Allt sem við vitum um 22 ára kærustu Kanye West