Sky News skýrir frá þessu. Fram kemur að maðurinn hafi verið fluttur á sjúkrahús með þyrlu og sé í lífshættu.
Yfirvöld hafa hafið rannsókn á málinu en þessi atburður átti sér stað nærri Seix í Ariége síðdegis á laugardaginn.
La Depeche hefur eftir veiðimanni, sem var einnig á veiðum á þessum slóðum, að hann hafi ekki séð hvað gerðist en hafi heyrt neyðarkall í talstöðinni. „Björninn réðst á hann og greip um fótlegg hans. reif kálfann af og særði hann einnig á hinum fætinum. Það tókst að stöðva blæðinguna þar til hjálp barst,“ sagði maðurinn og bætti við að hann væri ekki hissa á að birnirnir kæmu sífellt nær byggð því það væri ekkert eftir fyrir þá að éta í fjöllunum.
Um brúnbjörn, birnu, var að ræða. Árásin hefur vakið upp umræður um aðgerðir yfirvalda til að koma upp stofni brúnbjarna í Pýrenafjöllunum á nýjan leik. Áætlunin hefur verið umdeild frá upphafi og telja bændur að búfénaði þeirra stafi ógn af björnunum. Á síðasta ári voru 64 birnir taldir í Pýrenafjöllunum.
Gagnrýnendur segja að samhliða því að björnunum fjölgi verði erfiðara fyrir þá að finna nægt æti og því leiti þeir neðar og komist í návígi við fólk.
Staðarfjölmiðlar segja að frá janúar og fram í október á þessu ári sé talið að birnir hafi drepið 625 kindur, 16 nautgripi, 17 hross og einn hund.