Angela Merkel, kanslari, skýrði frá þessu í gær eftir fund með forsætisráðherrum sambandsríkjanna. Hún sagði að staðan væri grafalvarleg og nú þurfi að bregðast hratt við og af festu til að ná betri stjórn á faraldrinum.
Hin svokallaða 2G regla mun taka gildi á svæðum þar sem hlutfall innlagðra á sjúkrahús, af völdum veirunnar, er hærra en 3 á hverja 100.000 íbúa á sjö daga tímabili. Samkvæmt 2G reglunni verður fólk að vera bólusett eða hafa jafnað sig á smiti til að fá aðgang að stórum viðburðum og á það meðal annars við um menningarviðburði og íþróttaviðburði.
Þegar innlagnir á hverja 100.000 íbúa verða fleiri en 6 eða 9 taka enn harðari sóttvarnaaðgerðir gildi.
Auk þessara aðgerða verða gerðar auknar kröfur til bólusetninga heilbrigðisstarfsfólks og fólks í umönnunargeiranum. AFP segir að bólusetning verði gerð að skyldu fyrir þessa hópa. Süddeutsche Zeitung segir að ákveðin óvissa ríki þó um hvort bólusetning verði gerð að skyldu.
Í tilkynningu stjórnvalda um aðgerðirnar segir að það verði að grípa til þeirra til að vernda viðkvæmustu hópana í samfélaginu.
Í gær greindust tæplega 59.000 smit í Þýskalandi en á miðvikudaginn voru þau tæplega 68.400 og hafa aldrei verið fleiri á einum degi.
Í gær var tilkynnti að bólusetninganefnd landsins, Stiko, mæli með að öllum 18 ára og eldri verði boðið upp á þriðja skammtinn af bóluefni, örvunarbólusetningu. Stiko mælir með að mRNA-bóluefni verði notað.