Um 92% þeirra sem tóku afstöðu sögðust ætla að kaupa jólagjafir í íslenskum verslunum, um 56% í íslenskum netverslunum, um 17% í erlendum verslunum og um 27% í erlendum netverslunum. Konur voru líklegri en karlar til að ætla að kaupa jólagjafir í innlendum netverslunum. 44 ára og yngri voru líklegri til að ætla að eiga í viðskiptum við íslenskar vefverslanir en 55 ára og eldri. 54 ára og yngri voru líklegri til að ætla að versla í erlendum vefverslunum en þeir sem eru eldri.
Hvað varðar upphaf jólagjafakaupanna sögðust 32% hafa byrjað að kaupa jólagjafir áður en nóvember gekk í garð. Um 37% reiknuðu með að hefja kaupin í nóvember og um 29% í desember. 1% ætlar að versla á Þorláksmessu. Tæplega hálft prósent nefndi annan tíma og 1% ætlar ekki að kaupa neinar jólagjafir. Konur eru fyrr í jólagjafakaupunum en karlar en 38% þeirra höfðu hafið gjafakaupin áður en nóvember gekk í garð en hjá körlum var hlutfallið 27%.
Fleiri karlar en konur gera ráð fyrir að byrja gjafakaupin í desember eða 38% á móti 20%.
Um netkönnun var að ræða og svöruðu 965 manns eða 48% aðspurðra.