Mótmælin áttu að fara fram síðdegis í gær en ekki varð úr þeim þar sem götur höfuðborgarinnar Havana voru fullar af lögreglumönnum og liðsmönnum öryggissveita kommúnistastjórnarinnar.
Bandaríkjastjórn hefur fordæmt aðgerðir kommúnistastjórnarinnar. Í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu segir að kúbverska einræðisstjórnin hafi beitt fyrirsjáanlegum aðgerðum með því að dæma fólk til þungra refsinga, handtökum hafi verið beitt af handahófi og reynt hafi verið að hræða þá landsmenn sem krefjast breytinga.
Meðal hinna handteknu er Manuel Cuesta Morua sem hefur verið í fararbroddi fyrir lýðræðissinna.