Vegfarandi veitti því athygli að ekki var búið að kveikja ljós í versluninni klukkan 06.50 og var nokkuð undrandi yfir því þar sem verslunin átti að opna klukkan sex. Vegfarandinn hafði samband við lögregluna og skömmu síðar komu lögreglumenn á vettvang. Þegar þeim tókst loks að komast inn í verslunina mætti hryllileg sjón þeim.
Inni á baðherbergi fundu þeir Terence. Hann var dáinn og alþakinn blóði. Hann hafði verið stunginn 73 sinnum og skorinn á háls að auki. „Þetta var skelfileg aðkoma, ofbeldisfullt,“ sagði Brian Svelli, lögreglumaður, um aðkomuna á vettvang að sögn WFTV.
Engin vitni voru og lögreglunni miðaði lítið við rannsókn málsins og náði ekki að leysa það. En málið gleymdist ekki alveg og þegar lögreglan í Orange sýslu setti nýja deild á laggirnar 2019 til að rannsaka gömul og óupplýst mál var þetta mál eitt af aðalmálunum sem voru tekin til rannsóknar.
Brian Savelli, sem var í nýju rannsóknardeildinni, datt í hug að reyna að nálgast lausn málsins út frá erfðafræðilegu sjónarhorni. Aðeins ári áður varð aðferðin, þar sem DNA-prófíll er notaður til að búa til ættartré hins óþekkta morðingja, fræg en þá notaði lögreglan í Kaliforníu slíka aðferð til að handsama hinn svokallaða Golden State morðingja.
„Ég hugsaði með mér að þegar einhver er stunginn 73 sinnum þá hlýtur eitthvað DNA að verða eftir sem er ekki úr fórnarlambinu,“ sagði Savelli. Hann reyndist hafa rétt fyrir sér því nokkrir blóðdropar, sem voru ekki úr fórnarlambinu, fundust á vettvangi. Þeir voru því teknir til DNA-rannsóknar 2019.
Út frá niðurstöðum rannsóknarinnar var búið til ættartré sem sýndi að blóðið var úr einhverjum sem tengdist Kenneth Stough Sr og eiginkonu hans. Sjónir lögreglunnar beindust því að þremur börnum þeirra, þar á meðal Kenneth Stough Jr. Hann og Terence höfðu nánast verið nágrannar 1996 og þess utan störfuðu þeir báðir í versluninni sem Terence var myrtur í. Þegar þessar upplýsingar lágu fyrir fékk lögreglan heimild til að vakta Kenneth.
Dag einn sá Savelli han fara út með ruslið. Hann brást skjótt við og rannsakaði það sem var í ruslapokanum. Þar voru meðal annars Budweiser bjórdósir. Á einni var munnvatn sem dugði til að taka DNA-sýni úr. Það passaði við það sem fannst í blóðdropunum, sem fundust á morðvettvanginum, og því var Kenneth, sem er nú 54 ára, handtekinn og ákærður fyrir morðið.