En sveitarstjórnarkosningar eru auðvitað öðruvísi en þingkosningar og því verða þær að hluta ekki mælikvarði á ánægju kjósenda með minnihlutastjórn jafnaðarmanna sem hefur stýrt landinu í gegnum faraldurinn fram að þessu. Í mörgum bæjum og borgum standa ákveðnir flokkar vel að vígi og skiptir þá yfirleitt engu máli hver staðan er á landsvísu eða hvernig sitjandi ríkisstjórn stendur sig.
Reiknað er með að færri mæti á kjörstað að þessu sinni en ella vegna heimsfaraldursins. Yfirvöld hafa hvatt fólk til að kjósa enda sé það hornsteinn lýðræðisins. Margvíslegar ráðstafanir hafa verið gerðar á kjörstöðum til að tryggja öryggi kjósenda og í gær fengu mörg hundruð þúsund kjósendur smáskilaboð frá hinu opinbera þar sem þeir eru hvattir til að kjósa og fullvissaðir um að það sé öruggt að mæta á kjörstað.
Auk kosninga til sveitarstjórna verður kosið í svokallaðar héraðsstjórnir, Regionsråd, en Danmörku er skipt upp í fimm stjórnsýslusvæði, Region, þar sem Regionsråd fara með völdin. Þessi stjórnsýslusvæði sjá um ýmislegt sem er á höndum hins opinbera, til dæmis rekstur heilbrigðiskerfisins, sjúkraflutninga og fleira því tengt.
Kjörstaðir opna klukkan 8 að dönskum tíma og loka klukkan 20 að dönskum tíma. Fljótlega eftir það berast fyrstu tölur en ólíkt því sem er hér á landi þá eru atkvæði talin á hverjum kjörstað fyrir sig og hefst talning klukkan 20.