Samband Bandaríkjanna og Kína hefur verið ansi stirt síðustu árin. Það fór versnandi í stjórnartíð Donald Trump sem veittist oft harkalega að Kínverjum fyrir eitt og annað og hóf viðskiptastríð við þá. Eftir að heimsfaraldur kórónuveirunnar skall á hríðversnaði sambandið síðan en Bandaríkin hafa sakað Kínverja um að hafa ekki gert nóg til að stöðva útbreiðslu veirunnar. Einnig hafa Bandaríkjamenn sagt að kínversk tækni sé öryggisógn við Bandaríkin og umheiminn.
Xi Jinping sagði að ríkin verði að bæta sig í að ræða saman, vinna saman og takast á við áskoranir í sameiningu. Hann sagðist gjarnan vilja starfa með Biden þannig að löndin tvö geti framvegis horft fram á veginn á jákvæðum nótum. „Heilbrigt og öruggt samband er nauðsynlegt til að takast á við alþjóðlegar áskoranir eins og loftslagsbreytingarnar og kórónuveiruna,“ sagði Xi Jinping.
Biden sagði að hann vonist til að löndin geti komið sér upp sameiginlegum viðmiðum til að koma í veg fyrir misskilning og mistök. „Ábyrgð okkar sem leiðtoga Kína og Bandaríkjanna er að tryggja að samkeppnin á milli landanna okkar þróist ekki yfir í átök, hvorki fyrir gáleysi eða meðvitað, í staðinn fyrir einfalda og heiðarlega samkeppni,“ sagði Biden í upphafi fundarins.
Xi Jinping hefur ekki farið til útlanda síðan heimsfaraldurinn skall á en hann hefur rætt tvisvar við Biden símleiðis eftir að hann tók við lyklavöldum í Hvíta húsinu í janúar. Síðast ræddu þeir saman i september.
Þrátt fyrir að tóninn í samskiptum landanna hafi batnað eftir valdatöku Biden þá er Taívan stórt ágreiningsmál en eyjan hefur verið aðskilin stjórnmálalega frá meginlandi Kína síðan 1949 þegar kommúnistar sigruðu í borgarastyrjöldinni og þjóðernissinnar flúðu til Taívan. Taívan er í raun sjálfstætt ríki en Kínverjar staðhæfa að eyjan sé hluti af Kína og hóta að beita hervaldi ef Taívan lýsir yfir sjálfstæði. Bandaríkin hafa frá 1979 viðurkennt að Taívan sé hluti af Kína og það sama gera flest ríki heims.
Kínverjar hafa styrkt her sinni mikið að undanförnu og umsvif þeirra í lofti og á sjó nærri Taívan hafa aukist mikið síðustu misserin. Þessu hafa Bandaríkin mótmælt harðlega en þrátt fyrir viðurkenninguna frá 1979 um að Taívan sé hluti af Kína þá eru Bandaríkin náinn bandamaður Taívan á hernaðarsviðinu og selja landinu mikið af hergögnum og bandaríski hermenn koma að þjálfun hers landsins.