Sífelldur akstur konu undir áhrifum sterkra lyfja og fíkniefna vekur áhyggjur margra sem til þekkja.
Konan var þann 23. september síðastliðinn svipt ökuréttindum í fimm ár vegna margítrekaðs akstur undir áhrifum slævandi lyfja og ólölegra fíkniefna. Var dómurinn kveðinn upp í Héraðsdómi Suðurlands. Ákærur vörðuðu sex tilvik af umferðar- og fíkniefnalagabrotum og játaði konan öll brotin. Hún var einnig dæmd til að greiða tæplega 3,2 milljónir króna í sekt.
Meðal efnanna sem greinst hafa í blóði konunnar eftir að lögreglan hefur stöðvað akstur hennar eru kókaín, metadón, oxýkódon, klórdíazepoxíð, amfetamín og fjölmörg önnur lyf sem slæva athygli og akstursgetu.
Elsta tilvikið í ákærunni er frá 29. júní 2020 þar sem konan ók bíl um Eyrarveg og að Gagnheiði 67 á Selfossi, ófær til að stjórna bílnum örugglega vegna áhrifa af ávana- og fíkniefnum. Mældist meðal annars í henni amfetamín, díasepam, oxýkódon og fleiri lyf.
Skömmu síðar var hún tekin vegna sambærilegs brots á Digranesvegi í Kópavogi. Hún hefur einnig verið tekin á Suðurlandsvegi og í Garðabæ, en sem fyrr segir eru atvikin sem hún var sakfelld fyrir samtals sex.
Heimildir DV herma að konan hafi margoft ekið bíl, og jafnvel reglulega, eftir að dómur féll í máli hennar. Engar lagaheimildir eru til um forvirkt eftirlit með fólki sem svipt hefur verið ökurétti en refsingar fyrir umferðarlagabrot eru stigvaxandi eftir því sem brotum fjölgar (og að sjálfsögðu í samræmi við alvarleika þeirra). Refsingar við umferðarlagabrotum geta varðað sektum og fangelsi. Einnig er hægt að svipta ökuleyfi til lífstíðar en eins og fyrr segir hefur konan verið svipt ökuleyfi í fimm ár.
Samkvæmt 108. grein umferðarlaga má gera upptækt ökutæki við gróf eða endurtekin brot sem varða akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Í þeim tilvikum skal ökutækið vera eign ríkissjóðs, en hafi einhver beðið tjón við brotið skal sá eiga forgang til andvirðis ökutækisins ef bætur fást ekki á annan hátt.